Umfjöllun: Danmörk - Frakkland 29-30 | Takk fyrir ekkert

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danir lögðu árar í bát undir lok leiks og köstuðu frá sér sigrinum.
Danir lögðu árar í bát undir lok leiks og köstuðu frá sér sigrinum. Sanjin Strukic/Getty Images

Danmörk leiddi nær allan leikinn gegn Frakklandi til þess eins að tapa með eins marks mun og kosta Ísland þar með sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta. Takk fyrir ekkert Danmörk.

Spennan var mikil fyrir leik, þá kannski helst hjá íslensku þjóðinni enda þurfti Ísland að treysta á danskan sigur til að komast í undanúrslit. Leikurinn gat því vart farið betur af stað en Danir réðu lögum og lofum í upphafi leiks.

Danmörk komst 3-0 yfir og var með yfirhöndina í fyrri hálfleik. Franska vörnin var hripleg og opnaðist hægri vængur hennar trekk í trekk. Það var hreint ótrúlegt að horfa upp á dauðafærin sem Niclas Kirkeløkke fékk og þakkaði hann pent fyrir sig með hverju markinu á fætur öðru framan af leik.

Jacob Holm fékk ekki jafn góð færi en það virtist engu máli skipta hversu vel eða illa hann grýtti boltanum í átt að marki, allt endaði í netinu.

Þá var danska vörnin hreint út sagt frábær framan af leik og þar á bakvið var Kevin Möller í fantaformi. Hann skuldaði okkur Íslendingum það eftir að draga Niklas Landin að landi í leik liðanna nýverið.

Þó Danir hafi klúðrað því að ná skoti í síðustu sókn fyrri hálfleiks var munurinn samt sem áður fimm mörk er flautað var til hálfleiks, staðan 15-10 Dönum í vil. Við Íslendingar höfum þó brennt okkur á því nú þegar á þessu móti að klára einfaldlega ekki mikilvæga leiki í fyrri hálfleik.

Kevin Möller gerði sitt besta í kvöld. Það sama verður ekki sagt um alla leikmenn danska liðsins.Sanjin Strukic/Getty Images

Þá er aldrei hægt að treysta Dönum fyrir einu né neinu, höfundur ætti að vita það enda búsettur í Kaupmannahöfn.

Síðari hálfleikur var stútfullur af slæmum og vafasömum ákvörðunum danska liðsins. Sú fyrsta var að taka sjóðheitan Möller af velli og setja Niklas Landin í markið. Sá síðarnefndi vissulega með betri markvörðum í heimi og mögulega sýndi hann það í tvígang, en ákvörðunin ein og sér var samt skrítin.

Annars var síðari hálfleikurinn framan af líkt og sá fyrri. Danmörk hélt sinni þriggja til fimm marka forystu og virtust ætla að sigla sigrinum í hús – og þar með tryggja Íslendingum farseðilinn í undanúrslitin.

Þegar tíu mínútur lifðu leiks fór danska sóknin að hiksta og upp úr þurru fór Vincent Gerard að verja í marki Frakklands. Hann varð tvívegis frá Rene Antonsen úr algjörum dauðafærum. Færin voru það góð að téðum Rene verður snúið á Leifsstöð ef hann dirfist að sýna andlit sér hér á landi á næstu árum (eða áratugum).

Allt í einu var þriggja til fimm marka forysta orðin að tveggja marka forystu. Svo eins marks forystu, það mark endanlega sneri leiknum en Dika Mem negldi þá í hávörnina og boltinn lak inn eftir að Landin var sestur.

Eftir að áðurnefndur Rene hafði klúðrað einu af færum mótsins jafnaði Hugo Descat svo metin. Á meðan samherjar hans voru með buxurnar á hælunum og hjartað í buxunum var Descat yfirvegunin uppmálið á vítalínunni en vítaskot hans héldu Frakklandi inn í leiknum.

Á ögurstundu var það svo Mem sem stökk upp og lúðraði boltanum í netið, tvívegis, er Frakkar unnu ótrúlegan eins marks sigur. Lokatölur 30-29 Frakklandi í vil sem vinnur þar með milliriðilinn.

Ísland mætir Norðmönnum í leik um fimmta sæti mótsins á föstudaginn. Til mikils er að vinna í þeim leik en fimmta sætið gefur öruggt sæti á HM í handbolta sem haldið verður í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira