Skoðun

Lofts­lags­stefna Mið­flokksins ‒ flytja út mengun

Árni Finnsson skrifar

Miðflokksmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson segist sleginn eftir að hafa lesið viðtal við undirritaðan af því að ég – sem formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands – vilji ekki að mengun frá áburðarverksmiðju blási út á Íslandi.

Því er fyrst til að svara að áburðarverksmiðja borga sig seint hér á landi fyrir örsmáan markað. Nóg um þá hugmynd.

„Ef mengun af okkar völdum sést ekki hér er hún ekki til.“ Segir Þorsteinn heimspekingslega um mín viðhorf. Og bætir við að það sé „[ó]trúlega skammsýnt og eigingjarnt sjónarmið.“ Ennfremur: „Sem betur fer eru á Íslandi stjórnmálamenn sem sjá heildarmynd hlutanna. Sem sjá hnattræn áhrif þess að framleiða ál á Íslandi svo dæmi sé tekið.“

Misskilningur Þorsteins er að mengandi iðnaður hér á landi falli undir hnattrænar loftslagsaðgerðir, sem Ísland verði að taka að sér. Þetta er gömul lumma í loftslagsumræðu hér á landi en slík stefna hefur mér vitanlega hvergi verið rædd á alþjóðavettvangi, að minsta kosti ekki á loftslagsþingum Sameinuðu þjóðanna. Ekki heldur þegar íslensk stjórvöld börðust fyrir undanþágu frá Kyoto-bókuninni. Enda var það bara undanþága, ekki loftslagsaðgerð.

Þorsteinn spyr hvort formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hafi haldið því á lofti á ráðstefnum víða um heim „að einhverjir aðrir en Íslendingar eigi að sitja uppi með mengun af framleiðslu gæða sem við síðan njótum.“ Hvort ég vilji að mengunin verði einhvers staðar annarstaðar.

Svar: Nei, Hagur og heiður Íslands er að draga úr losun eins hratt og nokkur kostur er. Ísland á ekki að vera hæli fyrir mengandi iðnað. Lausnin er miklu fremur að orkufrekur iðnaður ‒ ál, stál eða sement – framleiði sínar vörur án þess að blása út gróðurhúsalofttegundum. Álfyrirtæki gera nú tilraunir til að framleiða ál án þess að nota kolarafskaut sem losa koltvísýring við bruna. Í Evrópu hefur stál- og sementsiðnaður lofað bót og betrun.

Jafnframt verður að knýja iðjuver með hreinni orku. Hvort heldur það er í Ástralíu, Kína eða Bandaríkjunum. Eða á Íslandi.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Flytjum út mengun

Það sló mig að lesa viðtal við formann Náttúruverndarsamtaka Íslands (NÍ) í Fréttablaðinu 18. Jan. þar sem hann finnur uppbyggingu áburðarverksmiðju á Íslandi allt til foráttu vegna kolefnislosunar frá slíkri starfsemi. Honum finnst fara betur á að einhverjir aðrir framleiði áburð til nota hér á landi og flytji um langan veg með tilheyrandi sótspori. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×