Handbolti

Elliði: Hef látið hann heyra það áður í gegnum sjónvarpið

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson átti stóran þátt í því að halda Nikola Karabatic niðri í kvöld.
Elliði Snær Viðarsson átti stóran þátt í því að halda Nikola Karabatic niðri í kvöld. Getty/Sanjin Strukic

„Ég er bara orðlaus. Þetta var magnaður leikur. Við áttum alla höllina, líka frönsku stuðningsmennina held ég,“ sagði Elliði Snær Viðarsson í skýjunum eftir stórkostlega frammistöðu Íslands í sigrinum gegn Frakklandi á EM.

Ísland vann átta marka sigur, 29-21, þrátt fyrir að vera án átta leikmanna vegna kórónuveirusmita, og steig ekki feilspor allan leikinn.

„Ég get ekki lýst þessu. Þetta er skemmtilegasti leikur og líklega einn af betri leikjum sem Ísland hefur spilað í nokkur ár,“ sagði Elliði sem fór gjörsamlega á kostum í vörn Íslands og skoraði auk þess fjögur mörk.

Klippa: Elliði eftir sigurinn ævintýralega á Frökkum

Elliði lét sig ekki muna um það heldur að láta Nikola Karabatic, hugsanlega besta handboltamann allra tíma, heyra það og á endanum skoraði Karabatic aðeins eitt mark úr sex skotum.

„Ég hef látið hann heyra það nokkrum sinnum í gegnum sjónvarpið í gegnum árin, fyrir dýfur og eitthvað. Pabbi líka og þetta var fyrir hann,“ sagði Elliði hress í bragði.

Elliði Snær Viðarsson var hæstánægður með stuðninginn í Búdapest.Getty/Sanjin Strukic

Ísland á nú möguleika á því að spila um verðlaun á mótinu en til þess þarf liðið að gera vel gegn Króatíu á mánudaginn og Svartfjallalandi á miðvikudaginn.

„Við ætluðum að ná langt á þessu móti og vissum að ef við myndum ekki vinna þennan leik þá væri draumurinn um undanúrslitn úti. Það var því alltaf stefnan að ná að klára þennan leik. Við vorum klárir í þetta,“ sagði Elliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×