Skoðun

Fjarða­byggð góður fjár­festingar­kostur

Ragnar Sigurðsson skrifar

Áform um Grænan Orkugarð í Reyðarfirði hafa verið á dagskrá undanfarið með það fyrir augum að framleiða rafeldsneyti til orkuskipta í fraktflutningum en þar á hröð þróun sér stað í. Tækifæri til rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi eru mjög mikil um allt land. Rafeldsneytisframleiðsla gæti orðið mikilvægt framlag Íslendinga til orkuskipta og dýrmæt útflutningsafurð Samhliða áformum um að reisa rafeldsneytisverksmiðju skapast ýmis önnur tækifæri í framleiðsluferlinu sem leiða til aukinnar atvinnu- og verðmætasköpunar s.s. hitaveita fyrir Reyðarfjörð, áburðarverksmiðja, seiðaeldi svo eitthvað sé nefnt.

Gangi áform eftir gæti slík verksmiðja orðið að veruleika eftir fimm til sex ár.

Verkefnið er hugsað við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði. Orkugarðurinn er fyrirhugaður á um 20-30 hektara svæði í nálægð við höfnina. Magnús Bjarnason hjá MAR ráðgjöfum, sem er tengiliður danska fjárfestingafélagsins Copenhagen Infrasturucture Partners (CIP), og stendur að hagkvæmnisathugun á verkefninu í samvinnu við Landsvirkjun og Fjarðabyggð, er bjartsýnn á áformin.

Fjarðabyggð þekkir vel til áskorana sem fylgja uppbyggingu og að taka á móti stórum fjárfestingum. Stórir fjárfestar með atvinnuskapandi hugmyndir horfa til þess hve vel sveitarfélagið er í stakk búið til að mæta slíkum áskorunum. Við höfum sýnt það sem sveitarfélag að við getum tekið á móti stórum verkefnum. Fyrir því eru tvær meginforsendur. Í fyrsta lagi höfum við styrkt sveitarfélagið mjög með skynsamlegri sameiningu stjórnsýslu ólíkra bæjarfélaga. Sameinuð höfum við fundið styrk hvert í öðru. Í annan stað er mikilvæg forsenda þess að geta tekið á móti stórum uppbyggingarverkefnum sterkur fjárhagur sveitarfélagsins. Þrátt fyrir markmið um hófsama gjaldheimtu höfum við svigrúm til fjárfestinga í hugmyndum framtíðarinnar og getum veitt þjónustu eins og best verður á kosið til lengri tíma.

Uppbyggingaráform á Reyðarfirði kalla á sterka forystu og sóknarhug sveitarstjórnar. Þar getur Fjarðabyggð mætt áskorunum framtíðarinnar og við sem samfélag höfum alla burði til að vaxa enn frekar.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og varaþingmaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.