Handbolti

Kórónu­veiran tekur einn besta horna­mann heims úr sænska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niclas Ekberg verður ekki með sænska landsliðinu í milliriðlinum.
Niclas Ekberg verður ekki með sænska landsliðinu í milliriðlinum. EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI

Niclas Ekberg verður ekki með sænska handboltalandsliðinu í milliriðlinum á Evrópumótinu eftir að hornamaðurinn fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi.

Ekberg er kominn í einangrun eftir smitið og þarf nú að bíða í fimm daga og fara í gegnum tvö neikvæð próf með sólarhringsmillibili til að fá leikheimild á EM á ný.

Svíar tryggðu sig áfram í milliriðil með því að gera jafntefli við Tékka í lokaleik sínum. Ekberg hafði skorað 7 mörk úr 10 skotum í fyrstu þremur leikjum sænska liðsins.

Ekberg er ein stærsta stjarna sænska liðsins en hann er eins og er markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar þar sem hann spilar með Kiel. Ekberg hefur skorað 116 mörk eins og BJarki Már Elísson en Hans Lindberg hefur skorað 112 mörk og Ómari Ingi Magnússon er með 103 mörk.

Ekberg hefur fimm sinnum orðið þýskur meistari með Kiel og hann hefur alls skorað 785 mörk í 193 landsleikjum með Svíum.

Hinn efnilegi Isak Persson kemur inn í sænska liðið í staðinn fyrir Ekberg en hinn 21 árs gamli Persson spilar með Lugi og er sonur Jonasar Persson sem var í heimsmeistaraliði Svía árið 1990. Isak hefur aðeins spilað einn landsleik og hann var í nóvember síðastliðnum.

Áður höfðu línumaðurinn Max Darj og hinn örvhenti Daniel Pettersson líka smitast af kórónuveirunni.

Fyrsti leikur Svía í milliriðlinum er á móti Rússum en Rússar hafa þegar unnið Noreg á þessu Evrópumóti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.