Handbolti

DR: Ís­land vantar topp­línu­mann og topp­mark­mann til að berjast um verð­laun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk mikið hrós frá sérfræðingi DR. Hér fagnar hann sigri á Ungverjum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk mikið hrós frá sérfræðingi DR. Hér fagnar hann sigri á Ungverjum. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Handboltasérfræðingur danska ríkisútvarpsins hafði mikla trú á íslenska landsliðið fyrir þetta Evrópumót í handbolta og hann skrifar stuttan pistil um íslenska liðið nú þegar ljóst er að Danir mæta Íslandi í fyrsta leik í milliriðlinum.

Frederik Mahler Bank fer yfir mótherja Dana í milliriðlinum en heimsmeistarar Dana unnu alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni með sannfærandi hætti.

„Ég spáði því fyrir fram að Ísland kæmist lang á þessu Evrópumóti. Þeir eru nógu góðir og hafa einstaklega spennandi leikmenn innanborðs og þá sérstaklega í útlínunni,“ skrifaði Frederik Mahler Bank á heimasíðu danska ríkisútvarpsins.

„Sá mest spennandi í íslenska liðinu er leikstjórnandinn frá Magdeburg, Gísli Kristjánsson. Hann er með svaka sprengikraft og hæfileikaríkur leikstjórnandi sem er bæði hættulegur sjálfur sem og að hann spilar skytturnar vel uppi,“ skrifaði Frederik.

„Íslenska liðið vantar bara topplínumann og toppmarkmann á alþjóðlega vísu. Ef þeir væru með þá þá væru þeir lið til að berjast um verðlaun á þessu móti,“ skrifaði Frederik.

„Danir eru sigurstranglegra liðið á móti Íslandi en þetta getur vel verið jafn leikur. Ísland elskar það að vinna Danmörk. Þeir eru litli bróðirinn og þetta er ekki fjölmenn þjóð. Guðmundur Guðmundsson myndi líka elska það að vinna Danmörk. Ég efast ekki um það,“ skrifaði Frederik.

Leikur Íslands og Danmerkur fer fram annað kvöld klukkan 19.30 að íslenskum tíma.

Það má lesa vangavelturnar í DR með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×