Körfubolti

LeBron þögull eftir um­mæli Magic: „Stuðnings­fólk Lakers á betra skilið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James ræddi ekki við fjölmiðla eftir leik Los Angeles Lakers og Denver Nuggets í gær.
LeBron James ræddi ekki við fjölmiðla eftir leik Los Angeles Lakers og Denver Nuggets í gær. Justin Ford/Getty Images

LeBron James er andlit Los Angeles Lakers í dag. Hann er maðurinn sem leitað er til þegar svara þarf fyrir slæmt gengi eða hvað sem gæti bjátað á. Eftir stórtap gegn Denver Nuggets ákvað LeBron hins vegar að tjá sig ekki við fjölmiðla.

Lakers beið afhroð gegn Nuggets í NBA-deildinni í körfubolta í gær, lokatölur 133-96. Var þetta næststærsta tap LeBron í treyju Lakers. Hið fyrra sannfærði hann og forráðamenn félagsins að það þyrfti að taka til í leikmannahóp félagsins og sækja þyrfti nýja ofurstjörnu. Sumarið eftir var Anthony Davis sóttur.

Mögulega nennti LeBron James ekki að ræða við fjölmiðla eftir enn eitt tapið sem þýðir að Lakers hefur nú tapað fleiri leikjum en það hefur unnið á leiktíðinni. 

Mögulega nennti hann ekki að ræða við fjölmiðla þar sem Magic Johnson, fyrrum stórstjarna liðsins og framkvæmdastjóri fyrir ekki svo löngu, tísti á meðan leik stóð. Hann sagði stuðningsfólk liðsins – og eiganda þess, Jeanie Buss – eiga betra skilið. Að liðinu skorti allan ákafa og vilja.

Russell Westbrook ræddi við fjölmiðla og var spurður út í umrætt tíst.

„Magic má hafa sína skoðun en hann er ekki hér alla daga. Hann er ekki í kringum hópinn. Hann veit ekki hvað gengur á og hann er ekki hér með okkur að reyna snúa genginu við.“

Lakers hafa verið án Anthony Davis undanfarið en það er engin afsökun fyrir skelfilegum frammistöðum leik eftir leik. 

Denver hefur til að mynda unnið 22 leiki og tapað 19 þrátt fyrir að Jamal Murray og Michael Porter Jr. hafi verið á meiðslalistanum frá upphafi tímabils. Færa má rök fyrir því að þar sé um að ræða tvo af þremur bestu leikmönnum liðsins.

Sá þriðji er svo að sjálfsögðu Nikola Jokić en sá átti stórleik er Denver kjöldró Lakers. Hinn 26 ára Jokić er 11 árum yngri en LeBron sem hefur spilað betur en flestir í vetur.

Mögulega var LeBron einfaldlega of þreyttur eftir enn leikinn þar sem hann virtist einn á móti rest til að ræða við fjölmiðla.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.