Handbolti

EM-hlaðvarp Seinni bylgjunnar: Eins og Gummi sé að fá hjartaáfall á hliðarlínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er litríkur á hliðarlínunni.
Guðmundur Guðmundsson er litríkur á hliðarlínunni. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Stefán Árni Pálsson, Róbert Gunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson fóru yfir sigur Íslands á Hollendingum, 29-28, í öðrum leik liðsins á mótinu. Íslenska liðið er með fullt hús stiga eftir tvo leiki.

Það var mikil spenna í leiknum í gærkvöldi og það reyndi á taugarnar hjá mönnunum í EM-hlaðvarpinu. Tveir þeir léku ófáa leiki með íslenska landsliðinu á stórmótum en það er miklu miklu meira stress að horfa á leikinn heima í stofu.

„Ég var með kúkinn í buxunum síðustu fimm mínútur leiksins því mér leist ekkert á þetta og var vel stressaður,“ sagði Stefán Árni Pálsson.

„Ég hafði engar stórar áhyggjur þar til að þeir jöfnuðu leikinn. Það var stórt veikleikamerki og ég bjóst ekki við því,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.

„Ég var smá á tímabili að hugsa um að þetta væri pottþétt komið en var maður alveg að farast þarna í lokin. Þá var nú gott að maður væri í sérstaklega vel byggðum sófa,“ sagði Róbert Gunnarsson.

„Ég sat þarna með konunni í sófanum og ég held að hún sé með nokkra marbletti. Maður er farinn að taka einhver högg, velta sér. Maður er eins og Gummi á hliðarlínunni, fylgir skotunum. Maður lifir sig alveg rosalega inn í þetta,“ sagði Róbert.

„Ég var að horfa á Gumma á hliðarlínunni í gær. Hann lítur oft út eins og hann sé að fá hjartaáfall, í alvörunni talað,“ sagði Stefán Árni.

„Þetta er mjög einlægt hjá honum. Hann má eiga það. Þetta er svo mikill skali. Þegar dómarinn gerir einhverja vitleysi þá er þetta svo mikil hneykslun,“ sagði Ásgeir Örn.

„Það væri alveg hægt að ráða hann í eitthvað dramahlutverk í bíómynd,“ sagði Róbert.

Það má heyra allt spjallið þeirra hér fyrir neðan en þar fóru þeir vel yfir sigurleikinn á móti Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×