Handbolti

Gísli Þorgeir: Sigur sem við hefðum ekkert endilega unnið fyrir þremur árum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson í fanginu á hollenskum varnarmönnum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í fanginu á hollenskum varnarmönnum. epa/Tamas Kovacs

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, var hæstánægður með sigurinn á Hollandi, 29-28, í B-riðli Evrópumótsins í kvöld.

Ísland var komið í góða stöðu, fimm mörkum yfir, en hikstaði verulega þegar Holland fór að spila 5-1 vörn. Íslensku strákarnir náðu þó að landa sigri og eru með fullt hús eftir fyrstu tvo leiki sína á EM.

Gísli mætti með skurð á enni í viðtal til Henrys Birgis Gunnarssonar eftir leikinn í kvöld.

„Ég var bara laminn í fyrri hálfleik. Ég fattaði ekki að það væri komið blóð fyrr en það var sagt við mig á bekknum. En þetta fylgir þessu,“ sagði Gísli sem skoraði fjögur mörk í leiknum.

Hafnfirðingurinn segir sigurinn til marks um framfarirnar sem hafa orðið á íslenska liðinu.

„Tilfinningin eftir þennan leik er svolítið skrítin. Auðvitað er maður ótrúlega glaður. Þetta er sigur sem við hefðum ekkert endilega unnið fyrir þremur árum. Þetta er jákvætt skref. Þetta var helvítis rússíbani þessi leikur en við lönduðum þessu og mér finnst það stór plús,“ sagði Gísli.

„Við hikstuðum alveg svakalega þegar þeir fóru í 5-1 vörn og komumst aldrei í þennan takt. Við gerðum okkur of erfitt fyrir og þeir stoppuðu okkur of mikið. Boltinn flaut ekki nógu vel. En Janus kom með frábæra innkomu af bekknum. Það er sama hver, allir skiluðu sína. Ég hefði viljað loka þessum leik fyrr, við vorum komnir fimm mörkum yfir en það vantaði kannski smá drápseðli.“

Íslendingarnir í höllinni í Búdapest létu vel í sér heyra og Gísli var afar ánægður með stuðninginn.

„Stuðningsmennirnir okkar eru geggjaðir. Það er hrikalega gaman að spila í svona höll. Maður verður líka að njóta. Það er klisja en það er svoleiðis,“ sagði Gísli að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×