Handbolti

„Stemningin var þeirra megin og við áttum mjög erfitt með að komast í þennan gír í lokin“

Sindri Sverrisson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur verið valinn maður leiksins af mótshöldurum í fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM.
Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur verið valinn maður leiksins af mótshöldurum í fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

„Það er ógeðslega gaman að vinna og sérstaklega fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson sem valinn var maður leiksins annan leikinn í röð, í sigri Íslands gegn Hollandi á EM í kvöld.

Sigvaldi tók undir að íslenska liðið hefði gert sér erfitt fyrir í kvöld:

„Seinni hálfleikur var ekki nógu góður. 5-1 vörnin hjá þeim var rosalega góð en við fengum tvö stig svo að ég er sáttur,“ sagði Sigvaldi.

Klippa: Sigvaldi eftir sigurinn gegn Hollandi

Hann var markahæstur Íslands með átta mörk úr tíu skotum og sum markanna voru svo sannarlega af dýrara taginu:

„Ég er bara að njóta núna. Það er gaman að spila 60 mínútur og ég fæ fullt af sendingum. Ómar, Janni og Viggó eru allir duglegir að senda á mig og ég ætla bara að halda áfram,“ sagði Sigvaldi.

Ísland náði um tíma fimm marka forskoti í seinni hálfleik en lenti svo í miklum vandræðum á lokakaflanum og rétt náði að kreista fram sigur:

„Þetta voru mjög erfiðar lokamínútur. Stemningin var þeirra megin og við áttum mjög erfitt með að komast í þennan gír í lokin, en fengum nokkur krúsjal mörk og vörslur,“ sagði Sigvaldi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.