„Þetta er bara geggjað. Ég er búinn að lenda fjórum sinnum í axlarmeiðslum. Þrjár aðgerðir og fá þetta tækifæri að byrja fyrir mitt land er draumur að verða að veruleika,“ sagði Gísli Þorgeir og leyndi sér ekki hversu ljúft þetta er.
Hann var líka í fyrsta skipti í treyju númer 10 en faðir hans, Kristján Arason, skartaði þeirri treyju í ansi mörg ár á glæstum landsliðsferli.
„Það var líka geðveikt að fá að klæðast treyjunúmerinu hans pabba loksins í landsliðinu og sjá þau syngjandi og hoppandi í stúkunni,“ sagði miðjumaðurinn brosmildur en hann hefur lengi stefnt á að komast í tíuna.
„Ég er búinn að berjast fyrir þessu síðustu þrjú árin. Alltaf að spyrja strákana hvenær ég fái hana. Fékk samþykkið núna og það byrjar vel.“
Eins og aðrir er Gísli meðvitaður um að liðið megi ekki fljúga of hátt upp þrátt fyrir sigur í fyrsta leik.
„Við unnum Dani síðast á EM og allir hátt uppi. Við erum bara komnir niður á jörðina og erum með fullan fókus á Hollendingana. Við vitum að þeir eru góðir. Þeir sem telja þá ekki með gott lið þurfa að vakna. Við ætlum samt að vinna. Allt annað en sigur er skandall.“