Handbolti

Sigurður Bragason: Þetta er léttir og frábært að byrja nýtt ár svona

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV var sáttur með sigurinn í dag.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV var sáttur með sigurinn í dag. Vísir: Hulda Margrét

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV var sáttur með 9 marka sigur á Stjörnunni í Olís-deild kvenna í dag. ÍBV átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en agaður leikur í seinni hálfleik skilaði þeim tveimur stigum. 

„Mér líður yndislega, eins og eftir alla sigur leiki. Mér líður rosalega vel. Þetta er léttir og frábært að byrja nýtt ár svona“, sagði Sigurður eftir leik. 

„Þetta er bara vörn og hraðaupphlaup. Við erum með rosalegt hraðaupphlaupslið og það gekk mjög vel. Ég ætlaði að keyra allan leikinn þótt ég sé að spila á fáum leikmönnum, þær eru í geðveiku formi. Þetta vonandi með að keyra svona, það er leikur á móti Íslandsmeisturunum á laugardaginn, að þetta bíti okkur ekki í rassinn en þetta gekk upp.“

Í fyrri hálfleik var markvarslan gríðarlega góð hjá ÍBV en sóknarleikurinn einkenndist mikið af töpuðum boltum.  Því var kippt í lag í seinni hálfleik sem skilaði þessum örugga sigri. 

„Ég var ósáttur við byrjunina. Við vorum undir eftir 12 mínútur, 8-7 held ég. Þá tókum við timeout og eftir það var þetta mjög gott. Við töluðum um það að fækka töpuðum boltum og svona aulasendingar sem við ætluðum ekki að gera. Við tókum það út og eftir það var þetta nánast 100%. Einn og einn en ekki eins og í byrjun þar sem vorum 6-7 boltar, ef þú gerir það allan leikinn áttu ekki séns.“

Næsti leikur er á móti KA/Þór og vill Sigurður að stelpurnar hugsi vel um sig fyrir þann leik. 

„Ég var að segja við eigum KA/Þór, það verður alvöru í Eyjum. Það sem ég vill sjá stelpurnar mínar gera er að fá sér gott að borða í dag og hugsa vel um sig, vera professional í þessu. Það er bannað að fá sér bjór. Við verðum klár.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.