Handbolti

Hefur góða tilfinningu fyrir EM: „Það er eldur í liðinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson er reynslumesti útileikmaðurinn í íslenska hópnum.
Aron Pálmarsson er reynslumesti útileikmaðurinn í íslenska hópnum. vísir/vilhelm

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir andann og hugarfarið í liðinu gott.

Aron og Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. Á morgun heldur íslenska liðið til Búdapest í Ungverjalandi þar sem leikir þess í B-riðli Evrópumótsins fara fram. Fyrsti leikur Íslands er gegn Portúgal á föstudagskvöldið.

Íslenska liðið hefur verið í búbblu á Grand hótel undanfarna daga til að forðast kórónuveirusmit. Aron segir að þótt aðstæður séu krefjandi reyni Íslendingar að gera gott úr þeim.

„Þetta er öðruvísi, að þurfa að pæla í þessum hlutum. Við höfum reynt að líta á þetta sem verkefni. Öll liðin þurfa að standa í þessu. Þetta er ákveðin hugarfimleiki sem þú ert í. Þú getur svo alltaf sótt í að þetta er ekki bara svona hjá okkur. Ég held að við höfum gert eins vel og hægt er. Þetta er áskorun en við látum þetta ekki trufla okkur,“ sagði Aron. 

Hann missti af síðasta stórmóti, HM í Egyptalandi, en er kominn aftur í landsliðið og er á leið á sitt sjöunda Evrópumót. Aron hefur góða tilfinningu fyrir EM.

„Ég tel okkur geta staðið okkur vel. Þetta lið hefur verið í mótun í 3-4 ár. Andinn og sjálfstraustið er gott og það er eldur í liðinu sem ég hef fundið í þessari æfinguviku. Við erum með fullt af leikmönnum sem hafa sannað sig í Evrópu og við gera það sama með landsliðinu,“ sagði Aron.

„Það er auðvelt að tala um þetta fyrir mót en þurfum að sýna þetta á vellinum. En það er gott sjálfstraust og góður í mórall í hópnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×