Handbolti

Viktor og félagar juku forskot sitt á toppnum með sigri í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG eru með átta stiga forskot á toppi dönsku deildarinnar.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG eru með átta stiga forskot á toppi dönsku deildarinnar. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG höfðu betur í toppslag dönsku deildarinnar í handbolta er liðið tók á móti Aroni Pálmarssyni og félögum í Álaborg. Lokatölur urðu 38-35, en GOG er nú með átta stiga forskot á toppnum.

Heimamenn í GOG náðu fljótt þriggja marka forskoti og liðið hélt þeirri forystu lengst af í fyrri hálfleik. Stuttu fyrir hlé juku þeir fosrkot sitt í fimm mörk, en staðan var 20-15 þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn héldu gestunum frá Álaborg í hæfilegri fjarlægð allan seinni hálfleikinn. GOG náði mest sjö marka forskoti, en gestirnir minnkuðu muninn niður í tvö mörk þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka. Nær komust þeir þó ekki og heimamenn unnu að lokum góðan þriggja marka sigur, 38-35.

Viktor Gísli Hallgrímsson sat á bekknum mest allan leikinn. Hann kom inn á til að freista þess að ver-ja vítakast, en það tókst ekki. Aron Pálmarsson átti fínan leik í liði Álaborgar þrátt fyrir tap, en hann skoraði þrjú mörk og lagði upp önnur sex fyrir liðsfélaga sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×