Bíó og sjónvarp

Johnson segir færslu Diesels til marks um óheiðarleg brögð

Samúel Karl Ólason skrifar
Dwayne Johnson og Vin Diesel.
Dwayne Johnson og Vin Diesel. Getty

Dwayne „Grjótið“ Johnson segir ekki séns á því að hann taki aftur þátt í Fast and the Furious kvikmyndunum. Þá segir hann færslu leikarans Vin Diesel á samfélagsmiðlum um að hann ætti að snúa aftur hafa komið sér á óvart.

Johson segist hafa rætt við Diesel síðasta sumar og gert honum ljóst að hann myndi aldrei taka aftur þátt í kvikmyndunum. Það hefði hann gert í einrúmi.

„Ég stóð fast á mínu en var kurteis í orðavali og sagði að ég myndi alltaf standa við bakið á leikurunum og styðja kvikmyndaheiminn, en það væri ekki séns að ég myndi snúa aftur,” segir Johnson í viðtali við CNN sem birt var í gær.

Því segir hann færslu Diesel frá því í nóvember hafa komið sér á óvart.

Í þeirri færslu á Instagram kallaði Diesel Johnson litla bróður sinn og sagði heiminn iða í skinninu eftir tíundu myndinni í söguheiminum.

„Börnin mín kalla þig Dwayne frænda og það líður ekki sá hátíðardagur sem þau senda þér ekki heillaóskir,“ skrifaði Diesel meðal annars. Hann vísaði einnig í Paul Walker, sem lék í myndunum en dó fyrir nokkrum árum, og sagði að Johnson yrði að taka þátt í myndinni.

„Ég vona að þú mætir áskoruninni og uppfyllir örlög þín,“ skrifaði Diesel.

Johnson segist ekki sáttur við þessi skrif Diesels. Hann sagði færsluna vitnisburð um óheiðarleg brögð hans.

„Mér líkar ekki að hann talaði um börnin sín og dauða Paul Walker. Höldum þeim utan við þetta,“ sagði Johnson við CNN. Hann sagðist alltaf hafa verið viss um að ljúka aðkomu sinni að myndunum. Sú aðkoma hefði verið æðisleg og það væri miður að þessi opinberu samskipti hefðu komið niður á því.

Frægar deilur

Eins og frægt er hafa Johnson og Diesel deilt mjög á undanförnum árum en sú deila hófst árið 2016. Var það við atvik við tökur áttundu myndarinnar í söguheiminum. The Fate of the Furious. Þá gagnrýndi Johnson Diesel fyrir slæm vinnubrögð með óbeinum hætti. Í kjölfarið hefur hann sagt að hann sjái eftir því.

Johnson hafði tilheyrt Fast-hópnum frá 2011.

Sjá einnig: Andar ísköldu á milli Vin Diesel og The Rock

Deilunum virtist vera lokið árið 2019 en þá gaf Diesel í skyn að Johnson hefði ekki staðið sig vel í leiklistinni við gerð kvikmyndanna og að Johnson hefði orðið reiður yfir tilraunum hans til að gera leik hans betri.

Fyrr á þessu ári tilkynnti Johnson svo opinberlega að hann myndi ekki leika í fleiri kvikmyndum í söguheiminum, að undanskilinni framhalds mynd Hobbs & Shaw.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.