Handbolti

Gætu nýtt undrabarn gegn Íslandi á EM vegna krísuástands

Sindri Sverrisson skrifar
Alexis Borges er á meðal þeirra sem dottið hafa út úr portúgalska landsliðshópnum vegna meiðsla.
Alexis Borges er á meðal þeirra sem dottið hafa út úr portúgalska landsliðshópnum vegna meiðsla. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Þrír markahæstu leikmenn Portúgals í sigrinum gegn Íslandi á HM í handbolta fyrir tæpu ári síðan eru meiddir eða smitaðir af Covid-19 nú þegar hálfur mánuður er þar til að liðin mætast í fyrsta leik á EM í Búdapest.

Mikil meiðsli gera Portúgölum erfitt fyrir í aðdraganda EM auk þess sem þrír leikmenn liðsins eru smitaðir af kórónuveirunni.

Íslendingar hafa verið nokkuð heppnari en þó eru Hákon Daði Styrmisson og Haukur Þrastarson ekki í EM-hópnum vegna meiðsla, og tveir leikmenn Íslands hafa greinst með kórónuveirusmit en ættu að vera klárir í slaginn þegar æfingar hefjast hér á landi 2. janúar.

Handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen bendir á að forföllin hjá portúgalska liðinu þýði að útlit sé fyrir að hinn 16 ára gamli „ofurhæfileikaríki“ Francisco Costa komi í hópinn sem hægri skytta.

Á meðal meiddra leikmanna Portúgals eru Pedro Portela og André Gomes, sem samtals skoruðu níu mörk í 25-23 sigrinum gegn Íslandi á HM. Miguel Martins, sem var markahæstur Portúgals með sex mörk úr sjö skotum, er svo einn þeirra sem smitast hafa af Covid-19.

Francisco Costa þykir afar mikið efni en hann er leikmaður Sporting Lissabon.mynd/sporting.pt

Línumaðurinn mikli Alexis Borges missir einnig af mótinu og áður var ljóst að annar línumaður, Luis Frade úr Barcelona, yrði ekki með vegna hnémeiðsla. Belone Moreira verður ekki með af persónulegum ástæðum og Joao Ferraz vegna meiðsla.

Auk Martins eru þeir Gustavo Capdeville og Alexandre Cavalcanti smitaðir af veirunni, en þar sem leikur Íslands og Portúgals er ekki fyrr en 14. janúar má ætla að þeir geti spilað.

Meiðslalisti Portúgals, samkvæmt Handball-World:

  • Luis Frade, línumaður, FC Barcelona
  • Andre Gomes, vinstri skytta, MT Melsungen
  • Pedro Portela, hægri hornamaður, HBC Nantes
  • Diogo Silva, hægri skytta, FC Porto
  • Alexis Borges, línumaður, SL Benfica
  • Joao Ferraz, hægri skytta, HSC Suhr Aarau
  • Belone Moreira, hægri skytta, SL Benfica

Smitaðir af Covid-19:

  • Miguel Martins, leikstjórnandi, PICK Szeged
  • Gustavo Capdeville, markvörður, SL Benfica
  • Alexandre Cavalcanti, vinstri skytta, HBC Nantes



Fleiri fréttir

Sjá meira


×