Handbolti

Teitur og félagar fyrstir til að leggja Magdeburg að velli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans lyftur sér upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans lyftur sér upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg urðu í dag fyrsta liðið til að vinna sigur gegn Íslendingaliði Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta á tímabilinu. Lokatölur urðu 30-27, en Magdeburg hafði unnið alla 16 leiki sína til þessa.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og fyrstu mínúturnar héldust liðin í hendur. Gestirnir í Magdeburg náðu þó þriggja marka forskoti stuttu fyrir hlé, en góður endasprettur heimamanna skilaði því að þeir leiddu í hálfleik, 13-11.

Heimamenn í Flensburg juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik. Liðið náði mest sex marka forskoti og vann að lokum virkilega sterkan þriggja marka sigur, 30-27.

Teitur og félagar lyftu sér upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum og eru nú með 27 stig eftir 17 leiki, fimm stigum minna en Magdeburg sem trónir enn á toppnum.

Teitur skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg, en í liði Magdeburg var Ómar Ingi Magnússon með sex mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×