Handbolti

Hákon út úr EM-hópnum með slitið krossband

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Daði Styrmisson verður frá keppni næsta hálfa árið og rúmlega það, ef að líkum lætur.
Hákon Daði Styrmisson verður frá keppni næsta hálfa árið og rúmlega það, ef að líkum lætur. vísir/vilhelm

Hákon Daði Styrmisson mun hafa átt að fá sæti í 20 manna hópi íslenska landsliðsins í handbolta fyrir EM í janúar en alvarleg meiðsli koma í veg fyrir þátttöku hans þar.

Hákon Daði meiddist á æfingu með liði sínu Gummersbach í Þýskalandi á föstudaginn. Bróðir hans, Andri Heimir Friðriksson, greindi frá þessu í hlaðvarpsþættinum Leikhléinu.

Andri segir Hákon hafa farið í sneiðmyndatöku síðar um daginn og sennilega slitið fremra krossband í hné.

„Læknirinn sagði að það væri líklegast slitið, eða mjög illa rifið. Þetta eru 6-9 mánuðir af endurhæfingu,“ segir Andri í þættinum.

Hákon kom til Gummersbach frá ÍBV í sumar og skrifaði í síðasta mánuði undir nýjan samning sem gildir til ársins 2024.

Andri fullyrti jafnframt að til hefði staðið að Hákon yrði í 20 manna EM-hópi Íslands. Nú verður Guðmundur að velja annan kost.

Ljóst er að Bjarki Már Elísson verður í EM-hópnum en aðrir vinstri hornamenn sem til greina koma nú eru Orri Freyr Þorkelsson úr Elverum og Valsarinn Vignir Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×