Handbolti

Þjálfari Þórs dæmdur í tveggja leikja bann fyrir að hóta dómurum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stevce Alusevski má ekki stýra Þór í næstu tveimur leikjum liðsins.
Stevce Alusevski má ekki stýra Þór í næstu tveimur leikjum liðsins. epa/TAMAS VASVARI

Aganefnd HSÍ hefur úrskurðað Stevce Alusovski, þjálfara Þórs í Grill 66 deild karla, í tveggja leikja bann fyrir að hóta dómurum.

Alusovski hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu í leik Þórs og ungmennaliðs Val í Grill 66 deildinni á laugardaginn. Þórsarar unnu leikinn, 32-29.

Eftir að hafa farið yfir málið, og fengið greinargerð frá handknattleiksdeild Þórs, komst aganefnd HSÍ að því að Alusovski hefði haft í hótunum við dómara leiksins, Ómar Örn Jónsson og Sigurð Hjört Þrastarson.

Úrskurð aganefndar má lesa með því að smella hér.

Alusovski getur ekki stýrt Þór þegar topplið Grill 66 deildarinnar, Hörður, kemur í heimsókn á laugardaginn. Það er síðasti leikur Þórsara fyrir áramót. Alusovski verður heldur ekki á hliðarlínunni í fyrsta leik Þórs eftir áramót, gegn ungmennaliði Hauka 15. janúar.

Mikla athygli vakti þegar Alusovski var ráðinn þjálfari Þórs fyrir tímabilið en áður en hann kom til Akureyrar var hann þjálfari norður-makedónska stórliðsins Vardar.

Þór er í 4. sæti Grill 66 deildarinnar með tólf stig, fjórum stigum frá Herði og ÍR sem eru í tveimur efstu sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×