Handbolti

„Annað hvort er maður hetjan eða skúrkurinn og í dag var ég skúrkurinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blær Hinriksson skoraði tíu mörk úr sautján skotum gegn Stjörnunni.
Blær Hinriksson skoraði tíu mörk úr sautján skotum gegn Stjörnunni. vísir/hulda margrét

Blær Hinriksson var skiljanlega svekktur eftir tap Aftureldingar fyrir Stjörnunni, 36-35, í tvíframlengdum leik í 32-liða úrslitum Coca Cola bikars karla í kvöld.

Blær skoraði tíu mörk og var markahæstur á vellinum en klikkaði á tveimur skotum í lokasókn Aftureldingar.

„Mér líður ömurlega. Við lögðum allt í þetta, bókstaflega allt, og þetta hefði getað fallið hvoru megin sem var en þetta féll með Stjörnunni. Ég tók af skarið undir lokin en klúðraði. Það gerist ekki aftur. Annað hvort er maður hetjan eða skúrkurinn og í dag var ég skúrkurinn,“ sagði Blær við Vísi eftir leik.

Hann kvaðst ánægður með frammistöðu Aftureldingar í leiknum og stoltur af sínu liði.

„Mér fannst við spila vel á köflum. Auðvitað duttum við niður og Stjarnan tók af skarið en heilt yfir spiluðum við mjög fínan leik og gáfumst aldrei upp. Við gerðum fullt af mistökum en komum alltaf sterkari til baka,“ sagði Blær.

Stjarnan og Afturelding mættust í Olís-deildinni á föstudaginn þar sem liðin gerðu jafntefli, 26-26, eftir að Mosfellingar höfðu leitt með tíu mörkum, 12-22, þegar 22 mínútur voru eftir. Blær viðurkennir að sá leikur hafi setið í leikmönnum Aftureldingar.

„Auðvitað, við vorum brjálaðir eftir þann leik og ætluðum svoleiðis að hefna okkar. Því miður fór þetta svona en ég er stoltur af liðinu og það er bara áfram gakk,“ sagði Blær að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.