Handbolti

Seinni bylgjan um hrun Aftur­eldingar í Garða­bæ: „Þetta er bara and­legt þrot“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, horfði á sína menn henda frá sér tíu marka forystu um helgina.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, horfði á sína menn henda frá sér tíu marka forystu um helgina. Vísir/Vilhelm

Afturelding henti frá sér því sem virtist unninn leikur er liðið mætti Stjörnunni í Garðabæ í Olís-deild karla í handbolta um helgina. Eftir að hafa verið tíu mörkum yfir fór það svo að leiknum lauk með jafntefli, lokatölur 26-26.

„Förum í þessa lygilegu endurkomu, 22-12. Hvað er hægt að segja,“ spurði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður þáttarins, hvumsa.

„Ég veit ekki eiginlega hvar við eigum að byrja. Að sjálfsögðu snúast allar fyrirsagnir um seinni hálfleikinn. Stjarnan var skelfileg í fyrri og Afturelding frábærir. Þessi seinni hálfleikur, það er svo mikið skrítið við þetta,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson og hélt svo áfram.

„Þegar lið ná svona rosalegri endurkomu þá hafa markmennirnir lokað markinu, það var ekki þannig. Markverðir Stjörnunnar voru ekkert frábærir. Fór einhver á algjöran eld: Nei í rauninni ekki.“

„Þetta er bara andlegt þrot. Þetta er í raun skammarlegt,“ sagði Jóhann Gunnar að endingu.

„Kaflinn frá fertugustu til fertugustu og fimmtu mínútu þegar þeir missa 10 marka forystu niður í fimm mörk án þess að það sé eitthvað sérstakt í gangi. Það má segja að Afturelding hafi bara boðið þeim upp á dans,“ sagði Rúnar Sigtryggsson um þennan ótrúlega leik.

Sjá má umfjöllun Seinni bylgjunnar um ótrúlega endurkomu Stjörnunnar hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Endurkoma Stjörnunnar

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×