Körfubolti

Eiki hljóð­maður: „Er ÍR komið með sterkara lið en Stjarnan?“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eiki hljóðmaður og svipurinn frægi.
Eiki hljóðmaður og svipurinn frægi. Stöð 2 Sport

Eiríkur Hilmisson, eða einfaldlega Eiki hljóðmaður, heldur áfram að spyrja strákana í Körfuboltakvöldi spjörunum úr. Að þessu sinni velti hann fyrir sér hvort ÍR væri komið með betri hóp en Stjarnan í Subway-deild karla í körfubolta.

„Ég held það sé kannski full mikið að segja það en eins og ÍR spilaði í gær þá finnst mér þeir vera að spila betur heldur en Stjarnan hefur verið að gera. Þetta er svona skipulagðasti og besti körfubolti sem ÍR hefur spilað í vetur. Ég efast um að Stjarnan hafi átt svona frammistöðu í vetur, enn sem komið er. Þó Stjarnan sé með breiðari hóp og betri einstaklinga þá eru þeir ekki með sterkara lið í dag,“ sagði Friðrik Ragnarsson, annar af sérfræðingum þáttarins.

Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds, spurði þá Sævar Sævarsson hvort liðið myndi vinna í hefðbundinni seríu þar sem liðið sem tapar væri úr leik.

„Ég ætla nú að gefa Stjörnunni það, ég myndi allavega halda að þeir myndu hafa það. Frikki (Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari) er búinn að gera frábæra hluti. Búinn að gera nákvæmlega það sem þeir þurftu að gera. Hann kemur inn og hann hreinsar út leikmenn, fær þrjá nýja inn. Kemur nýtt og ferskt blóð inn, þá er auðveldara að snúa genginu við – sem hefur verið frekar dapurt.“

„Svo eru þeir með þennan heimavöll. Ég myndi segja að það væri eftir því hvort ÍR væri með heimavallarréttinn eða ekki.“

Var Eiki sáttur með svör sérfræðinga þáttarins?

„Jájá, þetta er náttúrulega eins og remúlaði á steiktan fisk með raspi að fá svona sérfræðiálit,“ sagði Eiki að endingu.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×