Handbolti

Svíar tóku stig af Noregi | Fyrsti sigur Pólverja í milliriðlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þórir Hergeirsson og norsku stelpurnar þurftu að sætta sig við eitt stig í kvöld.
Þórir Hergeirsson og norsku stelpurnar þurftu að sætta sig við eitt stig í kvöld. Andre Weening/BSR Agency/Getty Images

Seinustu tveim leikjum dagsins á Heimsmeistaramóti kvenna í handbolta lauk nú rétt í þessu. Svíþjóð og Noregur gerðu jafntefli, 30-30, og Pólverjar unnu nauman sigur gegn Slóveníu, 27-26.

Mikið jafnræði var frá upphafi til enda þegar Svíþjóð og Noregur áttust við. Liðin skiptust á að skora og munurinn varð aldei meiri en tvö mörk í fyrri hálfleik. Þegar gengið var til búningshebergja munaði einmitt tveimur mörkum á liðunum, en þær norsku voru yfir, 14-12.

Norska liðið hafði svo yfirhöndina lengi vel í seinni hálfleik og náði mest fjögurra marka forystu í stöðunni 21-17. Þá tóku þær sænsku við og skoruðu fimm mörk í röð, og allt í einu höfðu þær tekið forystuna.

Norsku stelpurnar náðu þó forystunni á ný og leiddu með tveimur mörkum undir lok leiskins. Sænska liðið gafst þó ekki upp og tryggði sér jafntefli með því að skora seinustu tvö mörk leiksins.

Lokatölur urðu 30-30, en Noregur er nú í öðru sæti riðilsins með sjö stig líkt og Holland sem trónir á toppnum. Svíar koma þar á eftir í þriðja sæti með einu stigi minna.

Þá vann Pólland sinn fyrsta sigur í milliriðlinum er liðið mætti Slóveníu. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik höfðu þær pólsku yfirhöndina allan seinni hálfleikinn og það var ekki fyrr en undir lokin sem slóvenska liðið minnkaði muninn niður í eitt mark.

Lokatölur urðu 27-26, en Pólverjar sitja nú í fimmta og næst neðsta sæti riðilsins með tvö stig, stigi á eftir Slóvenum sem sitja í fjórða sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.