Handbolti

Þórir svarar Dönum: „Ættu að hafa meiri trú á eigin liði“

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur þjálfað kvennalandslið Noregs um langt árabil og náð mögnuðum árangri.
Þórir Hergeirsson hefur þjálfað kvennalandslið Noregs um langt árabil og náð mögnuðum árangri. EPA-EFE/CLAUS FISKER

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, segir að það sé nánast regla að talað sé um Noreg sem sigurstranglegasta liðið á stórmóti. Hann hvetur Dani til að hafa trú á eigin liði í stað þess að setja Noreg á einhvern stall.

Fyrsti leikur Noregs á HM á Spáni er gegn Kasakstan á morgun. Danmörk mætir aftur á móti Túnis í sínum fyrsta leik í kvöld.

„Það eru tvö lönd sem eru í sérflokki miðað við öll hin, og það eru Noregur og Frakkland. Noregur er með stjörnum prýtt lið sem er alltaf gott á stórmótum. Liðið er líka með meiri breidd en það hefur haft áður,“ sagði Peter Bruun Jörgensen, sérfræðingur TV2 í Danmörku.

Þórir var spurður út í þessi og fleiri sams konar ummæli danskra fjölmiðlamanna, af norska miðlinum Nettavisen, og var með skilaboð til nágranna sinna:

„Þeir ættu að hafa meiri trú á sínu eigin liði,“ sagði Þórir. „Danmörk er nefnilega klárlega eitt af sigurstranglegustu liðum mótsins. Hópurinn er traustur og getur náð langt,“ sagði Þórir.

„Þetta er nú alltaf einhvern keppni fyrir hvert mót um að setja stimpil á eitthvert liðanna sem það sigurstranglegasta, og það er regla að við fáum þann stimpil beint á ennið á hverju ári. Við tökum því bara eins og það er og verðum að lifa með því,“ sagði Þórir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.