Körfubolti

Haukur hefur sig til flugs á föstudaginn

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Helgi Pálsson lék með Andorra í spænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en er kominn heim til Íslands og spilar með Njarðvík í vetur.
Haukur Helgi Pálsson lék með Andorra í spænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en er kominn heim til Íslands og spilar með Njarðvík í vetur. Getty/Noelia Deniz

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, leikur sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík á þessari leiktíð þegar liðið tekur á móti Vestra á föstudaginn í Subway-deildinni.

„Ég er tilbúinn í nokkrar mínútur núna gegn Vestra en stefni að því að vera orðinn nokkuð sprækur í næsta bikarleik,“ sagði Haukur í samtali við heimasíðu Njarðvíkinga og vísar til bikarleiksins við Val 13. desember.

Haukur sneri heim úr atvinnumennsku í sumar eftir að hafa síðast spilað með liði Morabanc Andorra í spænsku úrvalsdeildinni. Hann kom heim meiddur eftir að hafa meiðst alvarlega í ökkla í mars.

Í sumar samdi þessi 29 ára leikmaður við Njarðvík til þriggja ára og nú er komið að því að hann mæti til leiks í Ljónagryfjunni.

„Maður er að reyna að vera skynsamur og fara ekki of geyst í hlutina. Það á allt að vera gróðið en nú vantar bara upp á snerpu, sprengikraft og leikform,“ segir Haukur um stöðuna á sér.

Njarðvík er í 5.-7. sæti Subway-deildarinnar með fjóra sigra og þrjú töp. Liðið mætir Vestra á föstudag, Stjörnunni 9. desember, Val í bikarnum 13. desember og ÍR 16. desember, áður en við tekur 13 daga hlé. Á milli jóla og nýárs er svo stórleikur Keflavíkur og Njarðvíkur á dagskrá.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.