Þrátt fyrir að Ísland hafi unnið frækinn sigur á Hollandi í fyrsta leik sínum í undankeppninni í gær þá vandaði Hannes Stjórnvöldum ekki kveðjurnar á twitter í morgun. Liðið er á leiðinni til Rússlands til þess að keppa annan leikinn í riðlinum og það ætti að vera heimaleikur hjá liðinu.
Það er hins vegar ekkert löglegt keppnishús hér á landi og þess vegna fer heimaleikur liðsins gegn gríðarlega sterku liði Rússa fram á heimavelli þeirra í Sankti Pétursborg. Er þetta bagaleg staða því öll lið vilja auðvitað spila sína heimaleiki í sínu landi. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta gerist og má því segja að leikur gegn Rússlandi verði sögulegur, þó á vondan hátt.
Hannes spyr í tístinu hvort hægt sé að treysta orðum stjórnmálamanna og vonast eftir því að nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar, sem verður væntanlega birtur um helgina, taki til þessara mála en landslið Íslands í bæði handbolta og körfubolta eru orðin langþreytt eftir þjóðarleikvangi sem uppfyllir nútímakröfur.
Erum a leið til Rússlands en ættum að vera á leiðinni heim til að taka á móti Rússum.Landslið Íslands eiga ekki heimili á Íslandi,bíðum eftir að sjá nýjan stjórnarsáttmála. Er hægt að treysta orðum stjórnmálamanna?? Pínu spennandi viðurkenni það... #korfubolti #fibawc @kiddigeir pic.twitter.com/F2AJmBTF6R
— Hannes S.Jónsson (@hannes_jonsson) November 27, 2021