Handbolti

Halldór Jóhann: Það eru ekki mörg lið sem vinna Gróttu með níu mörkum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í handbolta var sáttur með 9 marka sigur á Gróttu í frestuðum leik Olís-deildar karla. Selfyssingar voru með forskotið nánast allan leikinn og sigruðu örugglega, 32-23. 

„Það var bara ansi margt sem ég er ánægður með. Við vorum frábærir varnarlega allan leikinn. Það er ekki auðvelt að spila á móti Gróttu. Þeir spila mikið 7 á 6 og við vorum þolinmóðir og vorum með góðan hóp til að vinna í því. Við gerðum nánast allt sem við ætluðum okkur að gera og það skilaði okkur frábærum níu marka sigri. Það eru ekki mörg lið sem vinna Gróttu með níu mörkum, þeir eru með mjög agað lið og við vorum bara klárir í dag.“ 

Aðspurður hvort þetta hafi verið það sem lagt var upp með fyrir leikinn sagði Halldór þetta:

„Við fórum aðeins í gegnum okkar mál eftir ÍBV leikinn og síðustu vikur. Við ætluðum að spila góða vörn og það var aðalatriðið í dag. Að fá hraða í leikinn og hlaupa, við gerðum það. Við spiluðum frábæra vörn og hlupum upp völlinn. Mér fannst heildarbragurinn á liðinu frábær í dag og því er ég ótrúlega ánægður.“

Ertu sáttur með hvar þið standið í deildinni?

„Við erum ekki sáttir hvar við stöndum í deildinni. Við vissum að það yrði bras fram eftir líka. Við erum að fá marga leikmenn inn og það tekur tíma fyrir þá að koma sér í stand. Við höfum verið undir pari og ætlum okkur ekki það. Við eigum töluvert inni og við ætlum að vinna eitthvað.“

Næsti leikur Selfyssinga er á móti KA og vill Halldór sjá strákana eiga svipaðan leik eins og í kvöld. 

„Við höldum bara áfram. Sýnum þessa vinnusemi sem við sýndum í dag. Við vorum á staðnum allan tímann og héldum fókus. Það voru ekki þessar sveiflur í leik okkar sem hafa einkennt liðið í vetur. Við þurfum að halda því, það verður erfitt að fá KA hérna í heimsókn og við þurfum að spila góðan leik til þess að vinna.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.