Körfubolti

Fengu blauta tusku í andlitið en vöknuðu aftur í framlengingu

Sindri Sverrisson skrifar
Luka Doncic mætti aftur til leiks í gærkvöld og um það munaði svo sannarlega.
Luka Doncic mætti aftur til leiks í gærkvöld og um það munaði svo sannarlega. AP/John McCoy

Luka Doncic sneri aftur eftir meiðsli í framlengdum leik Dallas Mavericks gegn LA Clippers. Dallas missti niður tíu stiga forskot seint í fjórða leikhluta en vann í framlengingu, 112-104.

Heimamenn í Clippers náðu með ótrúlegum hætti að tryggja sér framlengingu en þeir skoruðu ellefu af síðustu tólf stigunum í venjulegum leiktíma. Þar á meðal var þriggja stiga flautukarfa Paul George úr erfiðri stöðu í horninu.

Þessi blauta tuska í andlitið frá George vakti gestina sem skoruðu fyrstu sjö stigin í framlengingunni og héldu Clippers í aðeins einu stigi í allri framlengingunni.

Doncic hafði misst af síðustu þremur leikjum, sem allir töpuðust. Slóveninn skoraði 26 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Kristaps Porzingis var hins vegar stigahæstur hjá Dallas með 30 stig.

Hjá Clippers var Reggie Jackson með 31 stig og 10 fráköst en George skoraði 26 stig.

Lakers án James og Davis spilaði veikur

Los Angeles Lakers urðu að sætta sig við 106-100 tap gegn New York Knicks í Madison Square Garden, í leiknum sem LeBron James missti af vegna síns fyrsta leikbanns á ferlinum.

Ekki bætti úr skák fyrir Lakers að Anthony Davis hafði verið veikur yfir daginn og mætti í hús aðeins 45 mínútum fyrir leik og hitti illa úr skotunum sínum þó að hann hafi endað með 20 stig.

Knicks komust 25 stigum yfir í leiknum en glutruðu niður forskotinu, áður en þeim tókst að lokum að tryggja sér sigur í lokin. Evan Fournier skoraði 26 stig fyrir heimamenn og Julius Randle 20 auk þess að taka 16 fráköst.

  • Úrslitin í nótt:
  • Detroit 92-100 Miami
  • New York 106-100 LA Lakers
  • Portland 119-100 Denver
  • LA Clippers 104-112 (e. framl.) DallasFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.