Handbolti

Stelpurnar fara ekki aftur á músahótelið

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska liðið fagnaði sigri í fyrsta leik í Belgrad. Liðið er í baráttu um eitt laust sæti á EM 2023.
Íslenska liðið fagnaði sigri í fyrsta leik í Belgrad. Liðið er í baráttu um eitt laust sæti á EM 2023. HSÍ

Stelpnalandslið Íslands í handbolta, sem statt er í Belgrad, þarf ekki að dvelja lengur á hótelinu sem það hefur verið á, þar sem músagangur á herbergjum hefur valdið usla.

Íslensku stelpurnar dvöldu á sama hóteli og leikmenn Serbíu, Slóveníu og Slóvakíu, en liðin leika á fjögurra liða móti um eitt laust sæti á EM 2023.

Eftir að í ljós kom að aðstæður á hótelinu væru óboðlegar vegna músagangs gekk HSÍ í málið og fékk í gegn að stelpurnar yrðu fluttar á annað hótel. 

Þetta staðfestir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, við RÚV og segir að stelpurnar verði á sama hóteli og dómarar og eftirlitsmenn á vegum handknattleikssambands Evrópu, EHF.

Það er í höndum mótshaldara í Serbíu að útvega hótel og segir Róbert að þeir hafi verið miður sín eftir að í ljós kom hve óboðlegar aðstæðurnar á hóteli liðanna væru. 

„Ég hef aldrei lent í þessu á mínum ferli í HSÍ, að það séu mýs á hótelinu. Ég ræddi þetta einmitt við serbneska sambandið í morgun. Þetta er hótel sem handboltasambandið þeirra hefur ekki notað áður, en hefur verið notað af bæði serbneska körfuboltasambandinu og blaksambandinu. Þannig þeir gerðu bara ráð fyrir því að það væri í lagi, sem reyndist svo sannarlega er ekki. En þeir brugðust allavega hratt við og leystu þessa stöðu, sem er bagaleg,“ segir Róbert við RÚV.

Íslensku stelpurnar mæta í dag liði Slóvakíu, eftir að hafa unnið Slóveníu í gær, og eftir leikinn við Slóvakíu fara þær á nýja hótelið sitt. Þær verða áfram í Belgrad fram yfir lokaleikinn gegn heimakonum á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×