Handbolti

Sigurjón við hestaheilsu: „Gott að vera með svona læknafjölskyldur í liðinu“

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurjón Friðbjörn Björnsson getur haldið áfram að leiðbeina leikmönnum Stjörnunnar strax á morgun eftir að hafa jafnað sig fljótt af yfirliðinu.
Sigurjón Friðbjörn Björnsson getur haldið áfram að leiðbeina leikmönnum Stjörnunnar strax á morgun eftir að hafa jafnað sig fljótt af yfirliðinu. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Það bara leið yfir mig. Læknarnir eru núna búnir að rannsaka mig í þaula og það er allt í standi,“ segir Sigurjón Friðbjörn Björnsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handbolta, sem endaði á sjúkrahúsi á föstudagskvöld eftir yfirlið.

Það fór eflaust um marga sem á horfðu þegar Sigurjón hneig niður í miðjum leik Stjörnunnar og Fram í Garðabæ á föstudaginn. Læknar úr hópi áhorfenda hlupu yfir völlinn og hófu að hlú að þjálfaranum.

„Það er gott að vera með svona læknafjölskyldur í liðinu,“ segir Sigurjón léttur og nefnir að foreldrar Helenu Rutar Örvarsdóttur, sem skoraði átta mörk í leiknum, hafi verið meðal þeirra sem hlúðu að honum. „Maður fékk einherja fjóra lækna til að passa upp á mann og senda upp á spítala,“ bætir Sigurjón við.

„Búið að taka mig í hvert einasta test“

Leikurinn, sem var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, stöðvaðist í nokkra stund en fljótt kom í ljós að Sigurjón hefði rankað við sér. Leikurinn var því kláraður en Sigurjón var fluttur á sjúkrahús.

„Það var fínt að þetta skyldi gerast á íþróttahússparketinu en ekki á einhverjum steinflísum,“ segir Sigurjón við Vísi í dag. Hann kveðst hafa misst meðvitund í stutta stund en jafnað sig fljótt á sjúkrahúsinu. Allar rannsóknir hafi svo komið vel út og að ekki sjái neitt á honum. En hefur þetta komið fyrir áður hjá honum?

„Nei. Svona hlutir gerast bara. Ég ætti að vera rólegastur yfir þessu af öllum. Það er búið að taka mig í hvert einasta test á jörðinni þannig að ég er góður,“ segir Sigurjón og kveðst mæta aftur til vinnu af fullum krafti á morgun.

Stjarnan varð að sætta sig við naumt tap í leiknum, 26-25, og er liðið í 6. sæti Olís-deildarinnar. Næsti leikur er við meistara KA/Þórs 4. desember, að afloknu hléi vegna landsleikja.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.