Körfubolti

Sigmundur orðinn leikjahæsti dómari sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigmundur Már Herbertsson hefur þrettán sinnum verið kosinn besti dómari ársins.
Sigmundur Már Herbertsson hefur þrettán sinnum verið kosinn besti dómari ársins. Vísir/Bára Dröfn

Sigmundur Már Herbertsson setti nýtt met í leik Stjörnunnar og Tindastóls í Subway-deild karla í körfubolta á dögunum.

Sigmundur Már dæmdi þá sinn 2054. leik fyrir Körfuknattleikssambands Íslands.

KKÍ segir frá því að með þessu sé Sigmundur orðinn leikjahæsti dómari sögunnar í leikjum á vegum KKÍ.

Hann sló þarna met Rögnvaldar Hreiðarssonar sem dæmdi 2053 leiki fyrir KKÍ áður en hann lagði flautuna á hilluna síðastliðið vor.

Lengi framan af var Jón Otti Ólafsson sá sem hafði dæmt flesta leiki fyrir KKÍ og þegar hann hætti vorið 2004 hafði hann dæmt 1673 leiki. Rögnvaldur fór svo fram úr honum 2016 og nú er Sigmundur kominn fram úr Rögnvaldi.

Sigmundur er 53 ára gamall og hefur verið dómari frá árinu 1994. Hann hefur fjórtán sinnum verið kosinn dómari ársins þar á meðal á síðasta tímabili.

Sigmundur var FIBA dómari til ársins 2018 en var þá að hætta vegna aldurs. Hann dæmdi alls 233 alþjóðlega leiki en hann varð fyrsti íslenski dómarinn til að dæma á EuroBasket árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×