Körfubolti

Hamur rann á Curry í 4. leikhluta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors hafa verið óstöðvandi í upphafi tímabils.
Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors hafa verið óstöðvandi í upphafi tímabils. getty/Jason Miller

Stephen Curry skoraði fjörutíu stig, þar af tuttugu í 4. leikhluta, þegar Golden State Warriors sigraði Cleveland Cavaliers, 89-104, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Golden State var þrettán stigum undir, 81-68, eftir fyrstu þrjá leikhlutana. Í 4. leikhluta rann hins vegar hamur á Stríðsmennina og þá sérstaklega Curry. Hann skoraði tuttugu stig í 4. leikhlutanum sem Golden State vann, 36-8, og leikinn með fimmtán stigum, 89-104.

Curry hitti úr fimmtán af 27 skotum sínum, þar af níu af sextán þriggja stiga skotum. Hann er stigahæstur í deildinni með 29,5 stig að meðaltali í leik. Golden State er á toppi Vesturdeildarinnar með þrettán sigra og tvö töp.

Miami Heat vann fjórða leikinn í röð þegar liðið bar sigurorð af Washington Wizards, 112-97. Jimmy Butler skoraði 32 stig fyrir Miami og Bam Adebayo tuttugu. Miami er á toppi Austurdeildarinnar.

Bradley Beal skoraði þrjátíu stig fyrir Washington sem hefur tapað tveimur leikjum í röð.

Sjö leikmenn Utah Jazz skoruðu tíu stig eða meira þegar liðið vann Toronto Raptors, 119-103, á heimavelli.

Rudy Gay og Donovan Mitchell voru stigahæstir í jöfnu liði Utah með tuttugu stig hvor. Sá fyrrnefndi lék sinn fyrsta leik fyrir Utah í nótt.

Gary Trent skoraði 31 stig og Fred VanVleet 24 fyrir Toronto sem hefur tapað þremur leikjum í röð.

Úrslitin í nótt

  • Cleveland 89-104 Golden State
  • Miami 112-97 Washington
  • Utah 119-103 Toronto
  • Memphis 120-108 LA Clippers
  • Minnesota 115-90 San Antonio
  • Denver 89-103 Philadelphia

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×