Handbolti

Teitur með sjö mörk í sjö skotum í seinni hálfleik í mikilvægum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Teitur Örn Einarsson var í miklum ham í seinni hálfleiknum í leik Flensburg og Dinamo Búkarest í Meistaradeild Evrópu.
Teitur Örn Einarsson var í miklum ham í seinni hálfleiknum í leik Flensburg og Dinamo Búkarest í Meistaradeild Evrópu. getty/Axel Heimken

Teitur Örn Einarsson átti frábæran leik þegar Flensburg vann góðan sigur á Dinamo Búkarest, 37-30, í Meistaradeild Evrópu í handbolta í gær.

Selfyssingurinn skoraði sjö mörk í leiknum og var markahæstur hjá Flensburg ásamt sænska hornamanninum Hampus Wanne.

Öll mörk Teits komu í seinni hálfleik. Hann tók eitt skot í fyrri hálfleik sem geigaði. Í þeim seinni var svo bókstaflega allt inni hjá Teiti en öll sjö skotin hans enduðu í netinu.

Teitur hefur leikið vel fyrir Flensburg síðan hann kom til liðsins frá Kristianstad í síðasta mánuði. Selfyssingurinn hefur fundið sig sérstaklega vel í Meistaradeildinni og var til að mynda valinn í lið 6. umferðar fyrir frammistöðu sína gegn Motor Zaporozhye. Teitur skoraði þá sjö mörk eins og í gær.

Þrátt fyrir að hafa aðeins spilað þrjá leiki í Meistaradeildinni hefur Teitur skorað nítján mörk, sjö gegn Motor Zaporozhye og Dinamo Búkarest og fimm gegn Veszprém. Flensburg er í 6. sæti B-riðils Meistaradeildarinnar.

„Ég er ánægður með vikuna þar sem við unnum þrjá leiki. Þetta var mjög erfitt í Búkarest og því var þeim mun mikilvægara að við kláruðum dæmið,“ sagði Teitur eftir leikinn í gær.

Flensburg fékk Teit vegna mikilla meiðsla hægri skyttanna Magnus Rød og Franz Semper. Hann skrifaði undir samning við Flensburg til loka tímabilsins en miðað við frammistöðu hans undanfarnar vikur er ekki ólíklegt að hann fái áframhaldandi samning við félagið.

Flensburg er ósigrað í síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum, unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli. Næsti leikur liðsins er gegn Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×