Viðskipti innlent

Fjölgar í foreldrahúsum

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikil hreyfing hefur verið á fasteignamarkaði undanfarið eina og hálfa árið. 
Mikil hreyfing hefur verið á fasteignamarkaði undanfarið eina og hálfa árið.  Vísir/Vilhelm

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á þróun leigumarkaðsins hér á landi og sést það vel í aldurshópnum 18 til 24 ára. Árið 2020 bjuggu 16% fleiri á því aldursbili í foreldrahúsum en árið 2019. Á sama tíma minnkar hlutfallið eða stendur í stað í öðrum aldurshópum.

Sömuleiðis fækkar einstaklingum í yngsta aldurshópnum sem búa í eigin húsnæði milli ára á meðan hlutfallið í öðrum aldurshópum hækkar. Þetta má lesa úr niðurstöðum nýlegrar könnunar sem unnin var af Prósent fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).

Umsvif hafa aukist til muna á fasteignamarkaði undanfarið eitt og hálft ár og hlutfall fyrstu kaupenda aldrei verið hærra. Samhliða þessu fækkaði einstaklingum á leigumarkaði. 

HMS

Frá því að mælingar HMS hófust árið 2017 og til ársins 2019 var hlutfall leigjenda í kringum 16% og náði toppi í um 18%. Við lok árs 2019 fór hlutfallið aftur á móti að lækka og hefur verið stöðugt í kringum 13% frá vorinu 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu HMS.

Að sögn stofnunarinnar má skýringuna líklega rekja til þess að leigjendur fóru af leigumarkaði og annað hvort í eigið húsnæði eða foreldrahús.

Vísbending um að framboð sé að minnka

Hlutfall leigjenda sem telja sig verða áfram á leigumarkaði eftir tíu ár hækkar töluvert milli ára. Í fyrri könnun HMS töldu um 34% leigjenda öruggt eða líklegt að þeir verði enn í leiguhúsnæði eftir tíu ár en hlutfallið hefur nú hækkað upp í 38% og því líklegt að langtímaleigjendum komi til með að fjölga. Að sögn HMS má líklega rekja þetta til þess að fleiri kjósi að vera á leigumarkaði og að efnameiri leigjendur hafi farið í eigið húsnæði.

Fram kemur í tilkynningu að hlutfall þeirra sem fannst erfitt að verða sér úti um núverandi húsnæði hækkar á milli ára eftir að hafa dregist saman í öllum fyrri könnunum HMS frá árinu 2015. Er þetta sögð vísbending um að framboð af leiguhúsnæði sé að minnka eftir að hafa aukist mjög eftir að faraldurinn skall á.

„Það má leiða að því líkur að hluti af þeim leiguíbúðum sem losnaði um vegna samdráttar í Airbnb útleigu hafi farið í söluferli sökum ört hækkandi húsnæðisverðs. Jafnframt hefur verið mikill aðflutningur fólks til Íslands sem eykur spurn eftir húsnæði og að öllum líkindum sér í lagi leiguhúsnæði.“


Tengdar fréttir

Einn af hverjum tíu greiðir minnst 70 prósent tekna í leigu

Þrettán prósent þeirra sem leigja íbúðahúsnæði af einstaklingum eða einkareknu leigufélagi greiða 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Hlutfallið er hærra hjá einstaklingum sem búa á stúdentagörðum, eða 15 prósent.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×