Körfubolti

Curry glansaði í stórleiknum á meðan Durant átti sinn versta leik í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors eru með besta árangur allra liða í NBA-deildinni.
Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors eru með besta árangur allra liða í NBA-deildinni. getty/Sarah Stier

Stephen Curry skoraði 37 stig þegar Golden State Warriors vann öruggan sigur á Brooklyn Nets, 99-117, í stórleik næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta.

Eftir tap fyrir Charlotte í síðasta leik sínum komst Golden State aftur á sigurbraut í Brooklyn í gær og sýndi styrk sinn. Stríðsmennirnir hafa unnið tólf af fyrstu fjórtán leikjum sínum á tímabilinu og eru á toppi Vesturdeildarinnar.

Kevin Durant náði sér ekki á strik gegn sínu gamla liði og skoraði aðeins nítján stig fyrir Brooklyn og var með slaka skotnýtingu. Þetta er í fyrsta sinn á tímabilinu sem hann skorar minna en tuttugu stig í leik. James Harden var stigahæstur hjá Brooklyn með 24 stig. Liðið er í 3. sæti Austurdeildarinnar.

Utah Jazz átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Philadelphia 76ers að velli, 120-85. Bojan Bogdanovic skoraði 27 stig fyrir Utah og Jordan Clarkson tuttugu.

Shake Milton skoraði átján stig fyrir Philadelphia sem er enn án Joels Embiid sem greindist með kórónuveiruna á dögunum. Philadelphia hefur tapað fimm leikjum í röð og er komið niður í 8. sæti Austurdeildarinnar.

Paul George hefur byrjað tímabilið af miklum krafti og skoraði 34 stig og tók níu fráköst á aðeins 34 mínútum þegar Los Angeles Clippers sigraði San Antonio Spurs, 106-92, á heimavelli. Reggie Jackson bætti 21 stigi fyrir Clippers. Dejounte Murray skoraði 26 stig fyrir San Antonio, tók tólf fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

  • Brooklyn 99-117 Golden State
  • Utah 120-85 Philadelphia
  • LA Clippers 106-92 San Antonio

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.