Viðskipti innlent

Loðnutorfur fundnar á Hala en bræla hamlar veiðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Börkur NK á siglingu inn Norðfjörð fyrr í mánuðinum.
Börkur NK á siglingu inn Norðfjörð fyrr í mánuðinum. SVN/Smári Geirsson

Áhöfnin á Berki NK, skipi Síldarvinnslunar í Neskaupstað, er búin að sjá loðnutorfur á Halamiðum út af Vestfjörðum. Bræla hamlar hins vegar veiðum sem stendur en búist við að lægi í kvöld.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar, sem ræddi við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki, í morgun en skipið var þá statt djúpt vestur á Hala í loðnuleit. Börkur hefur leitað loðnu ásamt Bjarna Ólafssyni AK síðustu daga.

Haft er eftir Hjörvari að þeir séu búnir að leita á Kolbeinseyjarhrygg, norðan við Strandagrunn og á Þverálshorni og þeir séu núna djúpt vestur á Halanum.

„Það er fyrst núna sem við sjáum loðnutorfur en þá bregður svo við að það er leiðindaveður. Hérna er bölvuð bræla, 25-28 metrar og sjórinn mínus ein gráða. Það á hins vegar að lægja í kvöld og þá verður einhver friður í sólarhring eða svo samkvæmt spá,“ segir skipstjórinn.

Frá loðnuveiðum á Faxaflóa á síðustu vertíð. Loðna dælist í lestina á Beiti NK. Snæfellsjökull í baksýn.KMU

Þá hafi fréttir borist frá togurum um að vart verði við meira líf á svæðinu og fiskur sem fáist sé fullur af loðnu.

„Það er semsagt loðna hér á ferðinni en það er fyrst núna sem við verðum varir við einhverjar alvörulóðningar. Menn verða að vera þolinmóðir í loðnuleitinni. Þetta á allt eftir að koma og það er mikilvægt að fylgjast vel með. Loðnutorfurnar sem við sjáum hér standa djúpt en við sjáum til hvað gerist þegar veðrið batnar,“ segir Hjörvar í samtali við heimasíðu SVN.

Fjallað var um loðnuveiðar í þættinum Um land allt fyrr á árinu. Hér má sjá kafla úr þættinum:


Tengdar fréttir

Fyrsta veiðiskipið ræst af stað á næstu loðnuvertíð

Loðnuveiðar, sem gætu orðið þær mestu í tuttugu ár, eru að hefjast, þremur mánuðum fyrr en síðastliðinn vetur, og var fyrsta veiðiskipið að búa sig brottfarar í Sundahöfn í Reykjavík í dag.

Segir loðnuvertíðina stóran lottóvinning fyrir þjóðarbúið

Núna er áætlað að loðnuvertíðin skili yfir tuttugu milljarða króna útflutningsverðmætum. Þetta kom fram í viðtali við Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, en þangað var Börkur NK í kvöld á leið með síðasta loðnufarm Austfjarða á þessari vertíð, 1.900 tonna farm. Þá virðist einungis Ísfélag Vestmannaeyja eiga eftir um þúsund tonn óveidd af sínum kvóta.

Kennsla í loðnuveiði: Dæla úr nót annarra

„Það er bara fundin torfa og kastað,“ svarar skipstjórinn á Beiti NK, Sturla Þórðarson, þegar við biðjum hann um að útskýra fyrir áhorfendum hvernig loðnuveiðar fara fram.

Höfum öll ofboðslega gott af því að finna hvað heldur okkur gangandi

„Það er bara gaman að vinna á vertíð. Það eru vaktir. Það er fjör. Þú finnur það að þú ert að bjarga verðmætum og að þetta skiptir máli. Ég held að við höfum öll bara ofboðslega gott af því að vera svona með puttann á púlsinum á því hvað heldur okkur gangandi,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um eigin reynslu af því að vinna á loðnuvertíð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×