Eyjamenn kættust mjög í fyrradag þegar Kap VE-4 landaði fyrsta loðnufarmi íslensks fiskiskips í þrjú ár. Þar með hófst loðnuvertíðin í Eyjum, eins og lýst var í þessari frétt:
„Spennandi. Ég var alveg búin að ákveða að það yrði loðna,“ segir Eydís Ásgeirsdóttir, flokksstjóri hjá Vinnslustöðinni, í fréttum Stöðvar 2.
„Þetta gefur bara líf í landið. Jákvætt. Gott að fá loðnu og gott að finna loðnulyktina aftur,“ segir hún.
Fulltrúar japanskra kaupenda meta ástand loðnunnar með starfsmönnum Vinnslustöðvarinnar. Mesta spennan er um hrognin eða kavíarinn.

„Þeir eru að kaupa þetta þegar þetta er komið í svona sextán prósent hrognahlutfall af hrygnunni. Þá fara þeir að byrja að kaupa. Nú er þetta svona sautján,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs.
„Fyrir hrygnumarkaðinn þá erum við bara á „prime time“. Nú er bara allt í botni,“ segir Sindri.
Á skrifstofunni stýrir Lilja Björg Arngrímsdóttir starfsmannahaldinu.

„Það eru mikil uppgrip fyrir fólk að koma á svona loðnuvertíð. Og fyrir marga sem starfa hjá okkur nú þegar sem fá að fara á þessar vaktir, þá er þetta mikil búbót fyrir fólk. En það komast ekki allir á vaktir, því miður.“
-Er slegist um þetta?
„Já, það er eftirsótt að komast á vaktir. Mjög svo,“ svarar Lilja Björg.

„Fólk fær meiri vinnu, meira útborgað. Við getum borgað bara betri skatta og gert ýmislegt jákvætt,“ segir Eydís.
-Meiri laun?
„Meiri laun auðvitað og mikil vinna. Mikil hlaup,“ segir flokksstjórinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: