Handbolti

Kristján Örn og félagar með nauman sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Örn og félagar unnu nauman sigur í dag.
Kristján Örn og félagar unnu nauman sigur í dag. PAUC

Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í PAUC unnu með minnsta mun er liðið heimsótti Montpellier í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 27-28.

Gestirnir í PAUC byrjuðu af krafti og skoruðu fyrstu fimm mörk leiksins. Heimamenn unnu sig þó hægt og bítandi aftur inn í leikinn og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 11-13, Aix í vil.

Heimamenn héldu áfram að vinna sig betur og betur inn í leikinn og jöfnuðu loks metin í stöðunni 16-16. Kristján og félagar voru þó alltaf einu skrefi á undan og byggðu upp smávægilegt forskot á ný. Það forskot létu þeir aldrei af hendi og unnu að lokum nauman eins marks sigur, 27-28.

Kristján Örn skoraði þrjú mörk fyrir PAUC úr sex skotum.

Kristján og félagar eru nú jafnir Nantes í öðru sæti með 13 stig eftir níu leiki, fimm stigum á eftir toppliði PSG. Montpellier situr í áttunda sæti með níu stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.