Handbolti

Sigvaldi og Janus meðal stjarna sem verða kynntar hjá nýja norska ofurliðinu um helgina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigvaldi Guðjónsson verður hluti af ofurliði Kolstad í Noregi.
Sigvaldi Guðjónsson verður hluti af ofurliði Kolstad í Noregi. vísir/hulda margrét

Norska úrvalsdeildarliðið Kolstad kynnir sex nýja leikmenn um helgina. Þeirra á meðal eru íslensku landsliðsmennirnir Sigvaldi Guðjónsson og Janus Daði Smárason.

Þetta herma heimildir Nettavisen. Stærsta nafnið sem Kolstad kynnir til leiks er Sander Sagosen, einn besti handboltamaður heims. Auk hans verða þrír aðrir norskir landsliðsmenn kynntir: Torbjørn Bergerud, Magnus Gullerud og Magnus Rød.

Sexmenningarnir verða kynntir í hálfleik á leik Kolstad og Haslum á sunnudaginn. Sagosen, Bergerud og Rød verða viðstaddir.

Samkvæmt heimildum Nettavisen ganga Sigvaldi, Janus, Bergerud og Gullerud til liðs við Kolstad eftir þetta tímabil. Sagosen og Rød koma svo sumarið 2023.

Janus Daði Smárason hefur leikið með Göppingen síðan í fyrra.vísir/vilhelm

Sigvaldi leikur með Kielce í Póllandi og Janus með Göppingen í Þýskalandi. Sigvaldi þekkir vel til í Noregi eftir að hafa leikið með Elverum á árunum 2018-20. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu tímabilið 2019-20 og valinn besti leikmaður norsku deildarinnar.

Sagosen leikur með Kiel, Rød með Flensburg, Gullered með Magdeburg og Bergerud með GOG. Saman hafa fjórmenningarnir leikið 441 leik fyrir norska landsliðið.

Kiel, Flensburg og Magdeburg staðfestu í morgun að Sagosen, Rød og Gullered væru á förum.

Kolstad ætlar sér stóra hluti á næstu árum og komast í fremstu röð í Evrópu. Enn liggur ekki fyrir hver mun þjálfa þetta ofurlið. Forráðamenn Kolstad vilja fá Christian Berge í verkið en þá verður hann að hætta með norska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×