Skoðun

Brim leiðandi í nýrri fjármögnun sjávarútvegs

Svanur Guðmundsson skrifar

Brim hefur í samstarfi við Íslandsbanka lokið við útgáfu skuldabréfa sem falla undir sjálfbæran fjármögnunarramma félagsins og eru kennd við grænan og bláan lit. Hér er um talsverð tíðindi að ræða og augljóst að græn skuldabréfaútgáfa Brims er fjöður í hatt íslensks sjávarútvegs og stjórnenda Brims. Hér er um að ræða fyrstu útgáfu af þessu tagi sem alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki hefur ráðist í að því er ég best veit. Það er óvíst að sjávarútvegsfyrirtæki í öðru landi en Íslandi, með sinn sjálfbæra sjávarútveg, geti ráðist í slíkt verkefni. En þetta er ekki aðeins ánægjulegt fyrir þá sem bent hafa á einstaka stöðu íslensks sjávarútvegs þegar kemur að umhverfismálum heldur er þetta einnig sérlega ánægjuleg tíðindi fyrir hluthafa Brims og reyndar íslenskan fjármálamarkað. Fyrirtækið hefur nú sótt sér fjármagn á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og greiðir fyrir það aðeins 1,8 prósent fasta vexti í evru út líftíma skuldabréfsins. Það eru góð kjör en einnig skiptir miklu að félagið hefur nú aukið lánamöguleika sína sem mun skila betri og tryggari fjármögnun í framtíðinni.

Fjármagna sjálfbærniverkefni

Með útgáfu skuldabréfanna fjármagnar Brim verkefni sem stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið en blá og græn skuldabréf snúa að verkefnum tengdum hafi og vatni. Skuldabréfin eru fyrstu sinnar tegundar sem gefin eru út af Brimi og jafnframt þau fyrstu á Íslandi sem falla undir bláan og grænan fjármögnunarramma. Heildarstærð skuldabréfaflokksins er samtals 5.000 milljónir króna að nafnverði, en nú hafa verið gefin út skuldabréf að nafnverði 2.500 milljónir króna.

Auðveldar Íslendingum að standa við loftslagsskuldbindingar

Loftlagsmálin eru ein af helstu áskorunum samtímans og við þurfum öll að bregðast við til að standa við skuldbindingar okkar. Íslenskur sjávarútvegur hefur lyft grettistaki þegar kemur að umhverfismálum en það kom skýrt fram í erindum á Sjávarútvegsdeginum í morgun (19 október). Íslandi er ætlað að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050 og ljóst er að tækniþekkingu fleygir fram sem er nauðsynleg forsenda fyrir orkuskiptunum. Með getu sjávarútvegsins til að ráðast í fjárfestingar og að geta sótt sér fjármagn til þeirra skiptir eru skapaðar forsendur til að ná þessum markmiðum. Íslenskur sjávarútvegur hefur nú þegar sýnt að hann getur gert ótrúlega hluti enda tæknistig hátt og þekking mikil. Lykillinn að árangri eru stórauknar fjárfestingar í nýsköpun og þróun verkefna á sviði umhverfis- og loftlagsmála og lykilinn að því er að geta ráðist í slíkar fjárfestingar sótt sér fjármagn eins og græn og blá skuldabréfaútgáfa Brims sýnir.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa HagkerfisinsAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.