Chicago Sky liðið tryggði sér WNBA titilinn í gær, þann fyrsta í sögu félagsins, með sex stiga sigri í fjórða leiknum á móti Phoenix Mercury, 80-74. Sky vann einvígið 3-1.
CHAMPIONS
— WNBA (@WNBA) October 17, 2021
For the first time in franchise history, the @chicagosky are #WNBA champs!#WNBAFinals presented by @YouTubeTV pic.twitter.com/XxHAGlnW4D
Phoenix Mercury var ellefu stigum yfir um tíma í leiknum og það leit út fyrir að Phoenix konur ætluðu að tryggja sér annan leik. Sky liðið var á öðru máli, vann síðustu fimm mínútur leiksins 15-2 og tryggði sér titilinn.
Sky liðið vann bara helminginn af deildarleikjum sínum og var langt frá því að vera sigurstranglegasta liðið í úrslitakeppninni. Liðið endaði í sjötta sæti í deildinni og hefur lið svo neðarlega í deildinni aldrei orðið áður WNBA meistari.
Í úrslitakeppninni small allt saman og liðið sló bæði Dallas Wings og Minnesota Lynx þar sem spilaður var bara einn leikur og vann síðan 3-1 sigur á Connecticut Sun í undanúrslitunum.
We did it.
— Chicago Sky (@chicagosky) October 17, 2021
IN CHICAGO. FOR CHICAGO. pic.twitter.com/NhOHcgFND6
Kahleah Copper var valin mikilvægasti leikmaður úrslitanna en hún fór fyrir liðinu í baráttu og var með 17,0 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í lokaúrslitunum.
Framlag leikstjórnandans, Courtney Vandersloot, var líka mikið en hún var með 10 stig, 15 stoðsendingar og 9 fráköst í síðasta leiknum.
Tvær af bestu leikmönnum liðsins eru báðar frá Illinois en voru búnar að vera mislengi með Sky liðinu. Allie Quigley, sem spilaði um tíma með Helenu Sverrisdóttur í Evrópu, hefur verið með liðinu frá 2013 og skoraði 26 stig og fimm þrista í leiknum.
Candace Parker and her daughter Lailaa pic.twitter.com/QbGWiDgAk2
— ESPN (@espn) October 17, 2021
Hinn leikmaðurinn er Candace Parker, sem varð meistari á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Parker var með 16 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar í fjórða og síðasta leiknum. Parker var mikill Chicago Bulls og Michael Jordan aðdáandi þegar hún var yngri.
Þetta var fyrsti WNBA titilinn Chicago Sky og fyrsti körfuboltatitilinn í borginni síðan að Chicago Bulls vann sinn sjötta titil á átta tímabilum sumarið 1998.
Parker er 35 ára gömul og hafði áður unnið titilinn með liði Los Angeles Sparks sem hún lék með í tólf ár. Hún hefur tvisvar sinnum verið valin mikilvægasti leikmaður deildarinnar og fékk þau verðlaun líka í úrslitaeinvíginu 2016.