Handbolti

Aron skoraði sjö í naumum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði sjö mörk úr níu skotum í dag.
Aron Pálmarsson skoraði sjö mörk úr níu skotum í dag. Aalborghaandbold.dk

Fjórir leikir fóru fram í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, og í tveimur þeirra voru Íslendingar í eldlínunni. Arnon Pálmarsson skorai sjö mörk þegar að Álaborg sigraði Skjern með einu marki, 27-26, og Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina í marki GOG sem vann fimm marka sigur gegn TMS Ringsted, 36-31.

Mikið jafnræði var með liðunum þegar að Álaborg heimsótti Skjern í danska handboltanum, en heimamenn í Skjern höfðu þó yfirhöndina í fyrri hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 12-11, heimamönnum í vil.

Aron og félagar tóku þó völdin í seinni hálfleik og náðu fljótt forystunni. Liðið náði mest fjögurra marka forskoti snemma í seinni hálfleik og hélt henni lengi vel. Undir lok leiks var staðan 26-22 Álaborg í vil, en þá skoruðu heimamenn fjögur mörk í röð og jöfnuðu leikinn á lokamínútunni. Það voru þó Aron og félagar sem skoruðu seinasta mark leiksins og unnu að lokum nauman eins marks sigur, 27-26.

Álaborg er nú í öðru sæti dönsku deildarinnar með 12 stig eftir sjö leiki, þrem stigum meira en Skjern sem situr í því sjötta.

Þá átti Viktor Gísli Hallgrímsson fínan leik í marki GOG þegar að liðið vann fimm marka sigur gegn TMS Ringsted. Viktor Gísli varði níu bolta, og þar af eitt víti, en GOG er á toppi dönsku deildarinnar með fullt hús stiga eftir sjö umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×