Handbolti

Janus Daði sagður á leið til norska ofurliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði Smárason ku vera búinn að semja við Kolstad í Noregi.
Janus Daði Smárason ku vera búinn að semja við Kolstad í Noregi. getty/Harry Langer

Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handbolta, gæti verið á förum til væntanlegs ofurliðs Kolstad í Noregi.

Forráðamenn Kolstad eru stórhuga og eru með ofurlið í smíðum, svipað og Álaborg í Danmörku er að gera.

Janus er einn þeirra leikmanna sem hafa verið orðaðir við Kolstad og samkvæmt heimildum Instagram-síðunnar Handball Leaks gengur hann í raðir norska liðsins næsta sumar þegar samningur hans við Göppingen í Þýskalandi rennur út.

Janus fór í aðgerð á öxl í febrúar og sneri aftur á völlinn í haust. Hann hefur leikið alla fimm leiki Göppingen í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu, skorað fimm mörk og gefið sjö stoðsendingar. Göppingen er í 4. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.

Samherji Janusar í landsliðinu, Sigvaldi Guðjónsson, hefur einnig verið orðaður við Kolstad. Hann þekkir vel til í Noregi eftir að hafa leikið með Elverum um tveggja ára skeið við góðan orðstír.

Stærsta nafnið sem hefur verið orðað við Kolstad er Sander Sagosen, einn besti handboltamaður heims. Samkvæmt heimildum Handball Leaks snýr hann aftur til uppeldisfélags síns sumarið 2023.

Meðal annarra leikmanna sem eru í sigtinu hjá Kolstad eru norski landsliðsmarkvörðurinn Torbjørn Bergerud, norsku landsliðsmennirnir Kent Robin Tönnesen og Magnus Fredriksen, danski hornamaðurinn Sebastian Barthold og Jonathan Carlsbogård, skytta sænska landsliðsins.

Draumur forráðamanna Kolstad er að fá Christian Berge, þjálfara norska karlalandsliðsins, til að stýra liðinu. Forráðamenn norska handknattleikssambandsins vilja hins vegar ekki að hann stýri félagsliði meðfram landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×