Golf

Faðm­lag helgarinnar kom eftir sigur Banda­ríkja­manna í Ryder­bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsmenn bandaríska Ryderliðsins fagna sigri með viðeigandi hætti.
Liðsmenn bandaríska Ryderliðsins fagna sigri með viðeigandi hætti. AP/Ashley Landis

Bandaríkjamenn unnu Ryderbikarinn í golfi í fyrsta sinn síðan 2016 eftir öruggan 19-9 sigur á Evrópuúrvalinu um helgina.

Evrópumenn voru búnir að vinna í fjögur af síðustu fimm skiptum og oftar en ekki þrátt fyrir að flestir bestu kylfingar heims kæmu frá Bandaríkjunum. Liðsheildin hefur alltaf verið frábær hjá Evrópu en sömu sögu hefur ekki verið að segja af samheldni Bandaríkjamanna.

Steve Stricker, fyrirliði bandaríska liðsins, tókst hins vegar að búa til góða liðsstemningu hjá Bandaríkjunum og liðið vann mjög öruggan sigur.

Stricker náði líka að fá tvo kylfinga til að vinna saman sem höfðu staðið í deilum á samfélagsmiðlum í mjög langan tíma. Þar erum við að tala um þá Bryson DeChambeau og Brooks Koepka.

Það þótti því mjög táknrænt fyrir helgina að þeir DeChambeau og Koepka föðmuðust upp á verðlaunapallinum.

Báðir unnu sinn leik í einstaklingsviðureignunum, Koepka á móti Austurríkismanninum Bernd Wiesberger og DeChambeau á móti Spánverjanum Sergio Garcia.

Allt bandaríska liðið söng „Why Can't We Be Friends“ eða „Af hverju getum við ekki verið vinir“ á sama tíma og Justin Thomas plataði þá DeChambeau og Koepka til að stilla sér upp saman með bikarinn.

„Ég held að áður en þetta er allt afstaðið að við ættum að fá þá Brooks og Bryson til að faðmast í miðju herberginu. Til að sanna það hversu gott lið við erum þá ætla þeir að faðmast,“ sagði Justin Thomas.

Stricker sagði að kylfingarnir hefðu líka beðið um það að fá að spila saman.

„Ég er orðlaus. Það komu allir saman sem einn og allir höfðu bara eitt markmið í þessari viku. Brooks og Bryson vildu spila saman. Það sýnir vel þá liðsheild sem var hjá okkur. Þetta er nýtt tímabil fyrri bandarískt golf,“ sagði Steve Stricker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×