Skoðun

Reyk­vískar sam­göngur - allir of seinir, alltaf!

Fjóla Hrund Björnsdóttir skrifar

Ég tafðist í umferðinni í dag, ég hefði mætt á réttum tíma ef umferðin hefði ekki verið stopp, ég þurfti að sækja barnið á leikskóla og strætó var orðinn allt of seinn, ég veit satt að segja ekki hvernig ég á að komast í vinnuna og skutla börnunum fyrst, veikindi í fjölskyldunni hafa gert það að verkum að við erum öll of sein.

Ég veit ekki hve mörg svona samtöl ég hef heyrt undanfarið. Vissulega brenna heilbrigðis-, skóla- og öldrunarmál á borgarbúum en samgöngumálin eru þó þeirra gerðar að enginn skilur hvernig hægt var að skapa þennan hnút sem rænir dýrmætum tíma frá öllum.

Segja má að á síðustu tíu árum hafi núverandi meirihluta í Reykjavík tekist að gera þetta að einu stærsta vandamáli höfuðborgarbúa, svo mjög að hvar sem maður kemur má skynja ráðaleysi hjá fólki. Fólk skilur ekki hvaða stefna býr að baki og áttar sig ekki á þeim lausnum sem eru í boði. Fyrir tveimur árum var gerður samgöngusáttmáli milli ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar. Sá sáttmáli var bundinn ýmsum skilyrðum sem borgin hefur ekki efnt. Þannig er ljóst að meirihlutinn í Reykjavík fer sínu fram óháð því samkomulagi sem gert er.

Valdstefna borgarstjórnarmeirihlutans

Stefna borgarinnar er að breyta samgönguháttum borgarbúa með valdi, þannig er markvisst þrengt að einkabílnum um alla borg og hafa engar framkvæmdir sem geta liðkað fyrir umferð verið í á annan áratug. Þetta þýðir að tafartími þeirra sem ferðast um borgin lengist stöðugt og samsvarandi óþægindi eins og við sem erum núna að tala við kjósendur verðum var við. Það gerir enginn athugasemd við að styðja og efla fjölbreyttari samgöngur en valdbeiting borgarinnar er ómanneskjuleg framkvæmd sem kemur verulega niður á lífsgæðum fólks.

Til að bæta gráu ofan á svart þá er unnið að „stóru lausninni“, borgarlínunni. Framkvæmd sem reynslan segir okkur að mun kosta óheyrilega fjármuni og tæpast leysa nein vandamál sem öflugt strætisvagnakerfi getur ekki leyst. Það er orðið tímabært að borgaryfirvöld átti sig á því að þau eru á rangri leið eins við í Miðflokknum höfum bent á frá upphafi. Ef íbúar Reykjavíkur eiga að geta treyst á að skynsamar lausnir verði hafðar að leiðarljósi í Reykjavík mun atkvæði til Miðflokksins nýtast best.

Höfundur skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.