Handbolti

Hreifst af fyrirætlunum Fredericia: „Skýr og trúverðug markmiðasetning“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson fer með íslenska landsliðið á EM í byrjun næsta árs.
Guðmundur Guðmundsson fer með íslenska landsliðið á EM í byrjun næsta árs. epa/JOHAN NILSSON

Guðmundur Guðmundsson segir að tilboð danska úrvalsdeildarliðsins Fredericia hafi verið afar heillandi og verkefnið þar á bæ sé mjög spennandi.

Guðmundur hefur skrifað undir þriggja ára samning við Fredericia en hann tekur við liðinu næsta sumar. Honum var sagt upp störfum hjá Melsungen í Þýskalandi á sunnudaginn.

„Þetta er ekki langur aðdragandi, kannski rúmar tvær vikur. Upphaflega ætlaði ég bara að vera fimm mánuði hér í Melsungen, svo kom covid og þá framlengdist þetta um eitt ár. Þetta hefur alltaf verið eitt ár í senn,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi.

„Síðan þróast þetta þannig að Fredericia hafði samband við mig. Þeir skýrðu út fyrir mér hvað þeir höfðu fram að færa og á endanum kom mjög áhugavert tilboð frá þeim.“

Guðmundur segir að forráðamenn Fredericia séu með mjög háleit markmið en jafnframt sannfærandi sýn á það hvernig á að ná þeim.

„Þetta er sögufrægt félag í Danmörku. Undanfarin ár hafa þeir komið aftur inn á kortið. Það sem er áhugavert við þetta verkefni er að þeir eru með mjög sannfærandi áætlun hvernig þeir vilja byggja þetta lið upp. Og þeir eru með skýra markmiðasetningu sem er vel fram sett og mér finnst hún trúverðug. Þeir taka þetta skref fyrir skref. Þeir vilja komast inn í átta liða úrslit í vetur, í topp sex á næsta ári, topp fjóra árið þar á eftir og svo framvegis,“ sagði Guðmundur.

Nánar verður rætt við Guðmund á Vísi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×