Handbolti

Einar: Fullt af möguleikum til að ná stigum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Jónsson er kominn aftur í Fram þótt hann sjáist hér í Gróttubol.
Einar Jónsson er kominn aftur í Fram þótt hann sjáist hér í Gróttubol. vísir/daníel

Einar Jónsson stýrði Fram í fyrsta sinn í deildarleik í átta ár þegar liðið tapaði fyrir Haukum í kvöld, 29-27. Hann kvaðst nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna en var svekktur með tapið.

„Ég er hundfúll. Það voru fullt af möguleikum til að ná stigum í dag. Á köflum vorum við sjálfum okkur verstir. Við fórum illa með þrjá til fjóra möguleika í hraðaupphlaupum. Þótt Haukar hafi leitt stærstan hluta leiksins var þetta dýrt. Svo gerðum við tvær ólöglegar skiptingar sem er hrikalega dýrt,“ sagði Einar.

„Það er fúlt að tapa en ég er mjög ánægður með okkur. Við börðust í sextíu mínútur og það var margt mjög gott.“

Fram byrjaði seinni hálfleikinn vel en svo skoruðu Haukar fjögur mörk í röð. Það bil náðu Frammarar ekki að brúa.

„Þegar augnablikið var með okkur gerðum við ólöglega skiptingu og tvisvar sinnum áttum við lélegar sendingar í hraðaupphlaupum. En við vorum að spila á móti frábæru liði og þeir refsa grimmt. Við getum ekki gert svona einföld mistök,“ sagði Einar.

Vilhelm Poulsen skoraði tíu mörk fyrir Fram og var langatkvæðamestur í sóknarleik þeirra. Einar hefði kosið að fá meira framlag úr öðrum áttum.

„Vill maður ekki alltaf meira framlag frá fleirum? Sömu leikmenn bera hitann og þungann af varnar- og sóknarleiknum. Kannski náðum við ekki að hreyfa liðið alveg nógu vel til að hafa ferska fætur inn á. Á köflum voru menn þreyttir. En Villi var frábær,“ sagði Einar að endingu.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.