Umfjöllun og viðtöl: Fram - Stjarnan 24-22 | Hafdís gerði gæfumuninn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hafdís Renötudóttir átti stærstan þátt í því að Fram vann Stjörnuna í dag.
Hafdís Renötudóttir átti stærstan þátt í því að Fram vann Stjörnuna í dag. vísir/daníel

Hafdís Renötudóttir átti stórleik þegar Fram vann Stjörnuna, 24-22, í síðasta leik 1. umferðar Olís-deildar kvenna í dag. Hafdís varði 21 skot, eða helming þeirra skota sem hún fékk á sig.

Fram er alls staðar spáð deildarmeistaratitlinum, ekki síst vegna endurkomu Hafdísar. Og hún olli engum vonbrigðum í dag og Frammarar geta þakkað henni stigin tvö. Hún varði ógrynni dauðafæra og kom í veg fyrir að Garðbæingar næðu Safamýrarstúlkum á lokasprettinum.

Emma Olsson skoraði sex mörk fyrir Fram og Hildur Þorgeirsdóttir fimm. Eva Björk Davíðsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Darija Zecevic varði fjórtán skot í marki liðsins (37 prósent).

Stjarnan byrjaði leikinn af krafti, spilaði vel í sókninni og komst þrisvar sinnum tveimur mörkum yfir.

Fram var lengi í gang en um leið og liðið þétti vörnina og náði að keyra fram í hraðaupphlaup kom munurinn á liðunum í ljós.

Stjarnan skoraði sex mörk á fyrstu ellefu mínútum fyrri hálfleiks en aðeins fjögur mörk á síðustu nítján mínútum hans. Liðið gerði alltof mörg sóknarmistök og skyttur þess fundu ekki taktinn.

Eftir smá byrjunarörðugleika kom betri bragur á sóknarleik Fram eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn.

Anna Karen Hansdóttir minnkaði muninn í 12-10 en Fram skoraði síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiks og leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 15-10.

Frammarar komust mest sex mörkum yfir, 19-13, þegar níu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Eftir það hrökk sóknarleikur Fram í baklás og liðið skoraði aðeins fimm mörk það sem eftir lifði leiks.

Fram gerði ógrynni mistaka en hélt samt alltaf ágætu forskoti. Ekki vantaði tækifærin hjá Stjörnunni en Hafdís reyndist gestunum afar erfið. Þá gerði liðið of mörg klaufaleg mistök þegar tækifæri var til að láta til skarar skríða.

Hildur svo gott sem tryggði Fram sigurinn þegar hún skoraði 24. mark liðsins. Stjarnan hætti ekki, skoraði tvö mörk í röð og átti tækifæri að minnka muninn í eitt mark en tapaði boltanum. Lokatölur 24-22, Fram í vil.

Af hverju vann Fram?

Fram sýndi í raun bara sparihliðarnar síðustu tuttugu mínútur fyrri hálfleiks þegar liðið náði forskotinu sem það hélt út leikinn. Fram skoraði bara níu mörk í seinni hálfleik og gaf færi á sér en Hafdís kom samherjum sínum oftsinnis til bjargar.

Hverjar stóðu upp úr?

Hafdís varði frábærlega í leiknum eins og klifað hefur verið á. Emma hélt áfram þar sem frá var horfið í Meistaraleiknum gegn KA/Þór og átti flottan leik, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hún skoraði sex mörk, var snögg fram og öflug í vörninni. Hildur átti einnig góðan leik.

Darija varði vel í marki Stjörnunnar og vörn liðsins var sterk í seinni hálfleik. Eva Björk var besti sóknarmaður Garðbæinga og skoraði sjö mörk.

Hvað gekk illa?

Skyttur Stjörnunnar fundu sig engan vegin. Þær Lena Margrét Valdimarsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir skoruðu samtals fimm mörk úr nítján skotum. Þá fór Stjarnan oft illa að ráði sínu í upplögðum færum og var aðeins með 44 prósent skotnýtingu.

Ragnheiður Júlíusdóttir var ekki með miðið stillt í dag og þurfti fimmtán skot til að skora fjögur mörk. 

Hvað gerist næst?

Liðin eiga bæði útileiki á laugardaginn. Þá sækir Fram Hauka heim á meðan Stjarnan fer norður og mætir Íslandsmeisturum KA/Þórs. Fimmtudaginn 30. september mætir Fram svo Val í undanúrslitum Coca Cola bikarsins.

Hafdís: Ættum að fagna aðeins meira þegar við vinnum

Hafdís Renötudóttir byrjar tímabilið með látum.vísir/bára

Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram, var að vonum sátt eftir sigurinn á Stjörnunni í dag. Hafdís átti stórleik og varði 21 skot, eða helming þeirra skota sem hún fékk á sig.

„Ég er sjúklega sátt með þetta og ánægð með stelpurnar. Við hefðum getað gert betur og ættum að fagna aðeins meira þegar við vinnum en ég er samt sátt,“ sagði Hafdís í leikslok.

Frammarar voru lengi í gang en voru sterkari aðilinn síðustu tuttugu mínútur fyrri hálfleiks og byggðu þá upp gott forskot sem þær héldu út leikinn.

„Við náðum að spila okkar vörn betur en við gerðum fyrstu tíu mínúturnar. Við náðum að setja hann inn og það kom sjálfstraust í liðið,“ sagði Hafdís.

Fram skoraði bara níu mörk í seinni hálfleiknum en það kom ekki að sök.

„Vörnin er alltaf lykilinn og ég get ekki sagt það nógu oft að ég elska að spila fyrir aftan þessar stelpur. Við vinnum saman og þá kemur markvarslan,“ sagði Hafdís að lokum.

Rakel Dögg: Þessi kafli í fyrri hálfleik drap okkur

Rakel Dögg Bragadóttir er á sínu öðru tímabili sem þjálfari Stjörnunnar.vísir/hulda margrét

Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, var að mörgu leyti sátt með frammistöðu síns liðs gegn Fram en sagði að slæmur kafli undir lok fyrri hálfleiks hefði reynst dýr.

„Við byrjuðum frábærlega en svo kom slæmur kafli þar sem við fórum út úr okkar plani og þá var okkur refsað. Við vitum alveg að við klikkum á dauðafærum, það gerist. Hún [Hafdís Renötudóttir] er frábær markvörður og þetta er bara partur af handboltanum,“ sagði Rakel.

„En þetta snýst um að halda plani og aga sem við gerðum frábærlega í seinni hálfleik. Við vorum ótrúlega flottar í vörninni og Darija [Zacevic] varði vel. En þessi kafli í fyrri hálfleik drap okkur.“

Stjarnan hélt Fram í aðeins níu mörkum í seinni hálfleik og markvarslan var nokkuð góð allan leikinn.

„Það var mjög gott og flott að sjá hana koma sterka inn. Við höfum unnið vel í varnarleiknum í vikunni og við vorum mjög góðar í vörninni,“ sagði Rakel.

„Maður veit að á móti Fram fær maður alltof mörg mörk á sig í bakið í hraðaupphlaupum. Í byrjun seinni hálfleiks fengum við svo á okkur mörg eftir hraða miðju. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða en heilt yfir fannst mér þetta frábær leikur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira