Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Valur 21-22 | Íslandsmeistararnir rétt mörðu Gróttu

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson.
Einar Þorsteinn Ólafsson. Vísir/Hulda Margrét

Grótta tók á móti Íslandsmeisturum Vals í fyrstu umferð Olís deildar karla í handbolta. Það var hart barist og aðeins eitt mark sem skildi liðin að þegar flautað var til leiksloka. Lokatölur 22-21 fyrir Val

Þetta var hörkuleikur frá fyrstu mínútu. Jafnræði var með liðunum og var gríðarlegur hraði í leiknum. Þegar um 10 mínútur voru liðnar leiddi Grótta með tveimur mörkum, 5-3. 

Þegar stundarfjórðungur var liðin voru Valsmenn hinsvegar búnir að jafna leikinn, staðan 6-6. Áfram var jafnræði með liðunum og var eitt mark sem skildi liðin að þegar flautað var til hálfleiks. Hálfleikstölur 10-11 Valsmönnum í vil. 

Valsmenn mættu af krafti í seinni hálfleikinn og þegar um 10 mínútur voru liðnar voru þeir komnir þremur mörkum yfir 12-15. 

Þegar um stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleik fengu Valsmenn tvær tveggja mínútna brottvísanir, staðan þá 14-17. Gróttumönnum tókst að skora eitt mark, tveimur mönnum fleiri. 

Staðan var jöfn síðustu 10 mínúturnar og minnti þetta á borðtennisleik um stund. Liðin skiptust á að keyra hratt upp völlinn og skora. Þegar 8 sekúndur voru eftir tekur Arnar Daði, þjálfari Gróttu, leikhlé. Staðan þá 21-22 fyrir Val. Grótta náði ekki að jafna leikinn og sigruðu því Valsmenn með einu marki, 21-22. 

Afhverju vann Valur?

Valsmenn voru agaðir. Þrátt fyrir að eiga ekki sinn besta leik í dag þá tókst þeim að knýja fram sigur. Þeir fengu á sig fá mörk sem skrifast á góðan varnarleik. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Val var Róbert Aron Hostert atkvæðamestur með 5 mörk. Benedikt Gunnar Óskarsson og Finnur Ingi Stefánsson voru með 3 mörk hvor. 

Björgvin Páll Gústavsson var góður í markinu með 13 bolta varða, 38% markvörslu. 

Hjá Gróttu var Birgir Steinn Jónsson atkvæðamestur með 6 mörk. Ólafur Brim Stefánsson og Hannes Grimm voru með 4 mörk hvor. 

Einar Baldvin var góður gegn sínu gamla liði, með 14 bolta varða, 39% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Þetta var mjög hraður handboltaleikur og oft eru það klaufaleg mistök sem ráða svolítið ferðinni þegar að hraðinn er mikill. Bæði lið sendu boltann út af, skutu langt framhjá og vantaði á köflum í leikinn smá vandvirkni. En ef það er kafli í leiknum sem stendur upp úr, er það þegar Valsmenn voru tveimur mönnum færri og Grótta náði ekki að nýta það nógu vel. 

Hvað gerist næst?

Í næstu umferð sem fer fram 23. september, sækir Grótta, FH heim í Kaplakrika. 

Valur fær HK í heimsókn einnig 23. september og fara báðir leikirnir fram kl. 19:30

Snorri Steinn Guðjónsson: Við spiluðum ekki nægilega vel

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari ValsVísir: Vilhelm Gunnarsson

„Mér líður mjög vel. Ég er hrikalega ánægður með þennan sigur. Hann var erfiður og við spiluðum ekki nægilega vel. Þeir gerðu þetta vel og hægðu á leiknum. Við komumst ekki í þann rythma sem við vildum en ég er mjög ánægður með strákana,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir eins marks sigur á Gróttu. Lokatölur 22-21.

„Ég lagði ekki upp með að vera hérna í jöfnum leik. Ég vildi hafa meiri hraða og keyra þetta meira upp. Ég reiknaði svo sem alveg með þessu. Þeir skora bara 21 mark og við getum ekki verið óánægðir með það. Við þurfum bara að vinna leikina og við gerðum það svo sem. Ég hefði viljað keyra meira á þá og vera beittari sóknarlega en ég átti líka alveg eins von á að þetta yrði erfitt.“

„Í ljósi þess sem hefur verið í gangi hjá okkur, með leiki og það sem er framundan þá hafði ég smá áhyggjur af fókusnum. Ég er samt ánægður með drengina mína sem gerðu þetta vel.“

Það er þétt dagskrá hjá Valsliðinu þessa daganna. Evrópuleikir, bikarkeppnin og svo Olís-deildin.

„Við erum í fínu formi og ég náði að rúlla liðinu vel í dag. Ég náði að hvíla menn og annað slíkt. Auðvitað er þetta álag en ég myndi frekar vilja hafa þetta svona en einhvern veginn öðruvísi.“

Næsti leikur Vals er Evrópuleikur á móti Lemgo sem fer fram á þriðjudaginn. 

„Við eigum leik við Lemgo á þriðjudaginn og nú fer fókusinn í það og þegar þú ert í svona þéttu prógrammi þá er best að hugsa ekkert meira en næsta leik. Lemgo er verðugur mótherji fyrir okkur. Við þurfum að safna kröftum og undirbúa okkur vel, reynum svo að ná upp góðum leik þar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira