Körfubolti

„Það er skrítið að vera í gulu og bláu“

Atli Arason skrifar
Dagný í baráttu við De Silva í leiknum.
Dagný í baráttu við De Silva í leiknum. Vísir/Vilhelm

Dagný Lísa Davíðsdóttir, leikmaður Fjölnis, var afar ánægð með að vera komin í úrslitaleik bikarkeppninnar í ár eftir 65-60 sigur á Njarðvík í kvöld.

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta var kannski aðeins meira spennandi en við vorum að vonast til. Þetta var mjög skemmtilegur leikur og mjög góður undirbúningur fyrir úrslitaleikinn á laugardaginn,“ sagði Dagný í viðtali eftir leik.

Dagný telur að Fjölnir eigi mun meira inni miðað við hvað liðið sýndi í þessum leik.

„Okkur hefur gengið vel á æfingum og svona. Það eru mikið af hlutum sem við erum að framkvæma á æfingum sem við eigum eftir að fínstilla í leikjum. Það er auðvitað bara eitthvað sem kemur með fleiri leikjum sem við spilum. Ég held að við eigum helling inni og vonandi getum við sýnt það á laugardaginn.“

Dagný var að spila sinn annan leik fyrir Fjölni en hún skipti um félag fyrir þetta keppnistímabil frá uppeldisfélagi sínu Hamri í Hveragerði. Fyrstu dagarnir hennar í Grafarvoginum hafa verið góðir að eigin sögn.

„Æðislegt. Það var ótrúlega vel tekið á móti mér, stelpurnar eru frábærar. Stjórnin, þjálfararnir og aðstæðurnar, mér finnst þetta allt geggjað. Það er skrítið að vera í gulu og bláu og allt í einu mætt í bæinn einhvern veginn en þetta er ótrúlega gaman. Ég er mjög spennt fyrir komandi tímabili,“ segir Dagný með bros út að eyum.

Ásamt því að hafa leikið vel fyrir Hamar á síðasta tímabili þá hefur Dagný eytt talsverðum tíma í Bandaríkjunum í háskólaboltanum þar við góðan orðstír. Sagan segir að mörg félög hafi leitast eftir kröftum Dagnýjar í sumar, Dagný var spurð að því afhverju hún valdi Fjölni.

„Það eru margir hlutir sem spila inn í en að mörgu leyti var lokaniðurstaðan bæði þjálfarinn og stelpurnar og svo framtíðarsýn félagsins,“ svaraði Dagný.

Varðandi markmið Fjölnis á komandi leiktímabili voru svör Dagnýjar einföld.

„Bikar á laugardaginn og svo alla leið í deildinni,“ sagði Dagný Lísa Davíðsdóttir, leikmaður Fjölnis, að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.